Grínið snýst ekki bara um að semja eða segja brandara

Stöðfirðingurinn Kimi Tayler verður með uppistand á Blábjörgum á Borgarfirði annað kvöld. Hún segir Íslendinga hafa gaman af að láta gera grín að sérkennilegheitum sínum.

„Þetta verður fyrsta uppistandið mitt á Austfjörðum sem opið er almenningi og ég er mjög spennt fyrir því,“ segir Kimi, sem fluttist til Stöðvarfjarðar í fyrra og starfar þar við Sköpunarmiðstöðina.

Hún er fædd í Englandi en hefur komið víða fram sem uppistandari. „Ég hef skemmt fólki í Reykjavík, Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð. Fyrir mér er dreifbýlið ónumið land en ég held það þurfi ekki síst á gríni að halda.“

Hún segir Íslendinga hafa gaman af því að láta utanaðkomandi gera grín að sérkennilegheitum sínum. „Íslendingar hafa gaman að heyra hvernig ég túlka landið og menninguna, að ég horfi utan frá og bendi á ákveðna hluti.

Þeir hafa til dæmis sérlega gaman af því þegar ég segi frá því hvernig mér gengur að læra íslensku. Ég get sagt frá því að ég var eitt sinn á ferðinni með eldri konu sem ég bjó hjá. Við erum að keyra um þegar hún bendir út um gluggann á hesta og segir: „Hestabangsar!“

Ég var hvumsa og spurði hana út í orðið. Hún sagði að Íslendingar kölluðu hesta hestabangsa. Ég notaði það orð eins og ekkert væri eðlilegra í tvö ár þar til einhver spurði hvað ég væri að þvæla!“

Hún segir uppistandið samvinnu grínistann og áhorfenda. Hún hefur eytt undanförnum dögum í að kynna sér bakgrunn Borgfirðinga enda er þar nægur efniviður af sérkennilegheitum.

„Grínið snýst ekki bara um að skrifa og segja brandara, heldur býr ákveðin sálfræði að baki áheyrendum og það þarf að hugsa um þann hóp. Það þarf að lesa salinn og átta sig á hvað fólkið vill heyra.

Áheyrendur kunna líka að meta að þú vitir aðeins hverjir þeir eru.Jafnvel þótt þú sért með þitt handrit, ef þú nærð að koma þeim aðeins að þá finnst þeim þeir vera að upplifa eitthvað sérstakt, sem er að vissu leyti rétt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.