Grýla íhugar ekki að gerast áhrifavaldur

„Nei, ertu alveg galin, ég hleypi þeim nú ekki beint í kræsingarnar,“ segir tröllkonan Grýla, aðspurð að því hvort hún ætli að mæta með börnin sín á hina árvissu Grýlugleði sem haldin verður á Skriðuklaustri á sunnudaginn. Hún er í yfirheyrslu vikunnar.


Gleðin hefst klukkan 14:00 og er aðgangur ókeypis. Gaulálfurinn mætir einnig á staðinn með fríðu föruneyti sem syngur og segir frá Grýlu og hyski hennar.

Klausturkaffi býður upp á girnilegt jólahádegishlaðborð fyrir gleðina og frábært Jólakökuhlaðborð eftir gleðina.

Fullt nafn: Grýla.

Aldur: 1253 ára gömul.

Starf: Húsmóðir í Grýluhelli.

Maki: Leppalúði leiðindaskarfur.

Börn: Þau eru svo mörg að ég er löngu búin að gleyma hvað þau heita öll. En jólasveinarnir eru svona í mestu uppáhaldi. En þú segir þeim nú ekki frá því.

Hvað finnst þér best að borða? Langbest eru óþæg krakkagerði. En rollurnar frá Hrafnkelsstöðum geta verið ágætar líka.

Hvað gerir þú aðra mánuði ársins en desember? Elda ofan í krakkaskarann og reyni að halda öllu í röð og reglu í hellinum.

Hvað finnst þér um Svíagrýluna í handboltanum? Svíagrýlu? Sveiattan. Er hún jafngömul og ég?

Fylgist þú með þjóðmálaumræðunni, ef svo er, hvað finnst þér um Klausturupptökurnar svokölluðu? Hvað finnst þér að umræddir aðilar ættu að gera í stöðunni? Þjóðmála hvað? Klausturupptökur? Er þjóðin farið að tala um þetta þegar við hjónin skreppum í Skriðuklaustur til að taka í pokaskjattann óþæg börn og álfakríli til að hafa í jólamatinn?

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Að bora í nefið. En þegar maður er með þrjú þá er freistingin þreföld.

Hefur þú íhugað að gerast áhrifavaldur (snappari)? Hvað áttu við? Ég skil bara hvorki upp né niður í þessari spurningu. Áttu við galdur? Ég kann náttúrlega ýmsa áhrifagaldra en segi nú ekki meir um það.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Grýla í gamla hellinum með Ómari Skallasyni er helvíti góð lýsing á mínu lífi.

Hver er þinn helsti kostur? Að vera svona gömul og vitur.

Hver er þinn helsti ókostur? Hvað ég er ófríð. Það verða allir skelfingu lostnir þegar þeir sjá mig.

Hvernig finnst þér börn í dag haga sér? Þessir krakkar gera ekkert af sér lengur. Þau hanga bara með nefið niðri í þessum glóandi spjöldum.

Hvert er framlag Leppalúða til heimilishaldsins? Hann hreyfir nú rassgatið á sér sem minnst. Gerir ekkert annað en þvælast fyrir í hellinum.

Hver er lykilinn að langlífi og góðri heilsu? Að éta vel og arka um fjöll og firnindi.

Hverju og hvenær laugstu síðast? Rétt áðan. Mitt langlífi er nú bara að þakka tröllakyninu.

Hvað bræðir þig? Ég get ekki bráðnað en ég get brosað, með öllum þremur hausunum í einu.

Hvaða jólasveinn var erfiðsta barnið? Kertasníkir því að hann átt alltaf upp allt ljósmetið í hellinum.

Hvað ertu með í vösunum/töskunni? Ja bíddu nú við. Hér er bein og annað bein. Bandspotti og ryðguð hnífsbredda. Og alskonar annað drasl. En pokinn er tómur. Tilbúinn fyrir Grýlugleðina.

Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað gerir þú þá? Elda góða krakkasúpu með fjallagrasamjólk. En það er bara um jólin.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér? Þeir renna nú allir saman í eitt. En það fer mestur tími í að skrapa saman í súpupottinn útgöngufé og álfarenglum svona til að bragðbæta grænkálsjafninginn.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Tísku? Þessi íslenska sem þið talið er óskiljanleg á stundum. En bændurnir í Fljótsdal hafa alltaf verið nískir við mig og gefið okkur lítið í svanginn. Nema helst hann á Hrafnkelsstöðum. Hann smalar aldrei neitt og þá er stutt að sækja í soðið úr Brandsöxlinni.

Settir þú þér áramótaheit, ef svo er, hvað var það og hvernig gekk að halda því? Áramótaheit? Nei hættu nú alveg. Ég má ekkert vera að þessu röfli, stelpuskjáta. Ég þarf að brýna kutana fyrir Grýlugleðina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar