Guðgeir Björnsson: Aldrei verið í hefðbundinni danshljómsveit

Guðgeir Björnsson er einn þeirra sem hafa sett svip sinn á bæjarlífið á Egilsstöðum, gekk lengi um síðhærður með barðastóran hatt og í síðum jakka, hávaxinn og íhugull á svip. Guðgeir var á yngri árum umtalaður gítarleikari á Austurlandi þótt hann hafi reyndar alla tíð verið hálfgerður utangarðsmaður í tónlistinni.

Rætt er við Guðgeir í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hann er fæddur á Egilsstöðum og hefur búið þar nær alla sína tíð. Fyrr bjó hann með kjörforeldrum sínum á Eyvindará en fluttist með þeim sjö ára gamall í Egilsstaði og bjó fjölskyldan fyrst þar sem veitingastaðurinn Tehúsið er núna.

Guðgeir var ættleiddur strax eftir fæðingu, blóðmóðir hans var einstæð með tvö önnur börn. Hún bjó lengi á Eskifirði og Guðgeir kynntist henni. Blóðföður sínum kynntist hann ekki þótt þeir byggju báðir á Egilsstöðum.

Guðgeir vissi hins vegar ekki þessa forsögu fyrr en krakkarnir í barnaskólanum byrjuðu að stríða honum. Kjörforeldrar hans sögðu honum eins og var þegar hann gekk á þau.

„Þetta kom miklu róti á barnshugann og ég býst við að þetta hafi sett mark sitt á allt mitt líf. Sambandið við foreldra mína breyttist og varð aldrei samt eftir þetta, þrátt fyrir að þau væru mér alla tíð mjög góð. Það var alltaf einhver gjá. Ég held þó að ég hafi ekki alið með mér beiskju og reiði, hvorki út í þau né móður mína, alla vega hef ég reynt að gera það ekki,“ segir Guðgeir.

Aldrei verið í hefðbundinni danshljómsveit


Guðgeir segist hafa haft gaman af tónlist frá því hann muni eftir sér, fylgt föður sínum á karlakórsæfingar og reynt píanónám sem átti ekki við hann. Næst reyndi hann gítarinn en sá sem hann æfði með var heldur stór. Tíu ára gamall sá hann Bítlamyndina „Hard Day's Night“ og eftir það var ekki aftur snúið.

Guðgeir fór síðan að hlusta á þungarokk og gekk í hljómsveitir, fyrst á Egilsstöðum, síðar á Núpi í Dýrafirði þar sem hann fór í gagnfræðaskóla. „Ég hef aldrei verið í hefðbundinni danshljómsveit, ekki þó vegna þess að ég vildi það ekki, mér var bara aldrei boðið að vera með í neinni slíkri. Sennilega þótti stíll minn ekki henta, mér fannst mest gaman af hrárri rokktónlist og það var oft mikill hávaði,“ segir Guðgeir.

Samdi tónlist fyrir leikfélagið


Hann hélt áfram í tónlistarlífinu eftir að hann kom austur, samdi meðal annars tónlistina fyrir uppsetningar Leikfélags Fljótsdalshéraðs á Rauðhettu og úlfinum og Dr. Jón Gálgan. Hann stofnaði síðan hljómsveit til að flytja blúslög sem hann hafði samið.

„Það var mikill hávaði í þessu bandi. Við æfðum lítið en létum fílinginn ráða. Þótt lögin væru fá voru þau þeim mun lengri og prógrammið dugði í stutta tónleika. Við spiluðum einu sinni á jólaballi fyrir börn. Kvenfélagið hafði samband við okkur og bað okkur að spila, sem við gerðum auðvitað. Hávaðinn var rosalegur og tónlistin kannski ekki sú jólalegasta, enda fór það svo að það voru nánast engir í salnum nema jólatréð.“

Guðgeir var síðan starfandi í fleiri sveitum sem mest spiluðu blús. Blúsband Guðgeirs var það síðasta og fór meðal annars til Noregs. „Ætli toppurinn á ferlinum hafi ekki verið þegar við spiluðum á jazzhátíð í Sortland í Noregi, sem er einhvers staðar fyrir norðan Lófót. Það var mjög skemmtileg ferð og við fengum nokkuð góða krítík.

Blúsbandið var starfandi með hléum í um 10 ára skeið en lognaðist út af 2013 að mig minnir. Ég á ennþá þrjá gítara, en snerti þá varla lengur. Þeir safna bara ryki.“

Lengri útgáfa birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.