Hægt að sjá Fullkomið brúðkaup á netinu
Upptaka af sýningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á leikverkinu Fullkomið brúðkaup er nú orðin aðgengileg á netinu. Ákveðið var að færa sýninguna til fólks heima í stofu út af samkomutakmörkunum.Nánast eins og í góðum farsa gekk allt á afturfótunum þegar frumsýna átti verkið síðasta haust. Reynt var að hnika sýningum til áður en samkomutakmarkanir tóku gildi en þær fyrirætlanir fóru út um þúfur þegar einn leikaranna lenti í sóttkví.
Þráðurinn var tekinn upp aftur þegar reglur voru rýmkaðar eftir áramót og sýndar átta sýningar. Áhorfendafjöldinn var þó takmarkaður og einhverjir treystu sér ekki út.
Sýningin var hins vegar tekin upp og er nú orðin aðgengileg í samstarfi við Pardus.