Halda bingó til styrktar írönskum konum

„Tilefnið er ljótt, borgarastríð sem geysar og konur eru að rífa af sér slæðurnar og klippa hár sitt á almannafæri,“ segir Þura Gæjadóttir, sem ásamt fleirum stendur fyrir stuðningsbingói á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld klukkan 19:30.

Málið snertir Þuru dýpra en marga aðra því írönsk stúlka býr hjá henni og hefur gert um skeið en þar í landi hafa stúlkur og konur mótmælt kröftuglega á götum úti frá 16. september þegar ung kona, Mahsa Amini, lést í haldi lögreglu en hún var upphaflega handtekin fyrir þær sakir að bera slæðu sína á rangan hátt utandyra. Fjölmenn mótmæli hafa verið í gangi síðan í mörgum borgum landsins og lögregla meðal annars brugðist við með skotvopnum. Síðast í gær voru þrír mótmælendur skotnir til bana. Kvenfólk verið langstærsti hluti mótmælenda frá upphafi.

Þura hvetur alla til að mæta og sýna stuðning við þetta mikilvæga málefni. Bingóspjaldið aðeins á þúsund krónur og allur ágóði rennur til hjálparsamtakanna Amnesty International. Þar á bæ er þeir fjármunir sem safnast eyrnamerktir þeim er eiga um sárt að binda í landinu vegna mótmælanna.

Hún tekur einnig fram að einhver færasti bingósérfræðingur landsins, Snædís Snorradóttir, haldi utan um hlutina af fagmennsku og frískleika í kvöld og fjölmargir aðilar og fyrirtæki hafa gefið marga góða vinninga. Aðalvinningurinn er Kaupmannahafnarferð fyrir tvo með Niceair og er þá fátt eitt talið.

Tehúsið á Egilsstöðum þekkja flestir Austfirðingar. Þar verður styrktarbingó haldið í kvöld. Mynd Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.