Haldið upp á útgáfu Fáskrúðsfjarðarsögu

Útgáfu byggðasögu Fáskrúðsfjarðar, sem Smári Geirsson hefur skrásett, verður fagnað í félagsheimilinu Skrúði á Fáskrúðsfirði í kvöld.

Um stórvirki er að ræða, bókin er 1700-1800 blaðsíður að lengd, í þremur bindum og með um 850 myndum.

„Þetta er saga sem byrjar um landnám og síðan er saga Fáskrúðsfjarðarhrepps hins forna rakin. Búðahreppur er klofinn út úr Fáskrúðsfjarðarhreppi árið 1907 og eftir það eru sveitarfélögin tvö. Sagan nær síðan til ársins 2003 þegar þau tímamót verða að Búðahreppur sameinast Stöðvarhreppi og Austurbyggð verður til,“ segir Smári.

„Það fer drjúgt pláss í að fjalla um sveitarstjórnarmál og atvinnuhætti; landbúnað, fiskveiðar og -vinnslu, verslun og iðnað. Síðan er það félagslegi þátturinn og má í því sambandi nefna verkalýðshreyfinguna, trúarlífið, ungmenna- og íþróttafélög, kvenfélögin, slysavarnafélögin og þarna störfuðu einnig öflugar góðtemplarastúkur.

Síðan er farið yfir skólamál í hreppunum, leiklist, tónlist og annað listalíf. Að kynnast þessu félagsstarfi var stórmerkilegt. Leiklistarstarfsemin var til dæmis lengi mjög öflug.

Það er skrifað um einstakar stofnanir svo sem sparisjóðinn og rafveituna eða tímabil eins og heimsstyrjöldina síðari. Eins er fjallað um tímamót eins og tilkomu síma, útvarps og kvikmynda svo eitthvað sé nefnt.

Samgöngumálin eru stór þáttur. Eitt af því sem er sérstakt við Fáskrúðsfjörð er að byggðin og þar með talið þorpið á Búðum komst mjög seint í akvegasamband. Menn fóru langt fram á 20. öldina gangandi eða ríðandi um fjallaskörðin og meðfram ströndinni en Búðaþorp var lengi tiltölulega einangrað ef samgöngur á sjó eru undanskildar.

Saga iðnaðar er mjög áhugaverð. Bátasmíði á Búðum var sérstaklega merkilegur þáttur. Virkjun vatnsafls og rafmagnsmálin sömuleiðis. Ýmislegt kemur á óvart í skólasögunni og svo er það saga íþróttafélaganna. Ég er viss um að fæstir Fáskrúðsfirðingar hafi heyrt um íþróttafélagið Hörð sem var fyrsta íþróttafélagið sem starfaði á Búðum.“

Bókaútgáfan Hólar gefur bókina út. Hófið í kvöld hefst klukkan 20:00. Nemendur úr Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar spila, boðið verður upp á léttar veitingar auk þess sem valdir kaflar úr bókinni verða lesnir upp.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.