Hallur í Bloodgroup: Menn í lögguleik sem leiddist í vinnunni
Hallur Kristján Jónsson og félagar í austfirsku hljómsveitinni Bloodgroup voru stöðvaðir af þýskum lögreglumönnum í vikunni. Leitað var í hljómsveitarrútunni að fíkniefnum og vopnum.
„Ég held að þessum mönnum hafi leiðst í vinnunni. Þeir voru í einhverjum lögguleik,“ sagði Hallur í samtali við Síðdegisútvarp Rásar 2 í dag. Hallur og Ragnar bróðir hans koma frá Egilsstöðum og eru ásamt öðrum meðlimum hljómsveitarinnar í fjörutíu daga tónleikaferðalagi um Evrópu.
Óeinkennisklæddir lögregluþjónar stöðvuðu þá skammt utan við Frankfurt fyrir fyrstu tónleikana. Hallur segir síma, vegabréf og tölvur ferðalanganna hafa verið gerðar upptækar og þeim haldið í tvo tíma án þess að vita hvað væri í gangi. „Enskukunnátta þeirra var ekki góð.“
Hljómsveitin er núna á Spáni á áttunda degi ferðalagsins af fjörutíu. Sveitin hefur þegar komið fram í Þýskalandi, París og á Spáni. Í dag er hún í fríi en spilar á morgun í Oporto í Portúgal. „Við höfum verið að spila á meðalstórum klúbbum. Ferðin hefur gengið vel og uppselt á marga tónleikanna.“
Bloodgroup á sviði á LungA 2010. Mynd: GG