Handbrögðin við hleðslu kennd í Hjarðarhaga
Námskeið í torf- og grjóthleðslu var nýverið haldið í Hjarðarhaga á Jökuldal. Nemendur voru átta, flestir af Austurlandi en sú sem kom lengst að var frá Frakklandi.
Verkefni námskeiðsins var að gera við fjárhús sem standa í túnjaðrinum við Hringveginn.
Verkið gekk vel og á fjórum dögum náðist að klára viðgerðir á grjót- og torfveggjum, smíða grind í húsið og setja á þak. Einnig eru viðgerðir langt komnar á hlöðu sem áföst er fjárhúsinu. Húsin eru nokkuð stór með einum garða og eru veggir hlaðnir úr grjóti og hnausum, hrís er á þaki og torf ofan á.
Húsin eru almenningi til sýnis og öllum velkomið að staldra við og skoða.