Hanna Elísa áfram
Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir, úr Djúpavogshreppi, er komin í sjö manna úrslit Idol-Stjörnuleitar.
Hanna Elísa keppti á föstudagskvöld í átta manna úrslitum þar sem keppendur sungu lög úr kvikmyndum. Hún söng lag Simons og Garfunkels, Sound of Silence. Lagið er á vef þáttaraðarinnar kennt við myndina The Graduate, þar sem það er spilað þrisvar sinnum.
Lagið er samið í kjölfar morðsins á John F. Kennedy árið 1963 og var ætlað að endurspegla viðbrögð bandarísku þjóðarinnar í kjölfar þess. Lagið hefur verið notað í fleiri kvikmyndum. Í kvikmyndinni Bobby, sem fjallar um morðið á Robert Kennedy og sýnd var í Ríkissjónvarpinu um helgina, er það spilað skömmu fyrir morð á honum. Í kvikmyndinni Watchmen, sem nú er í kvikmyndahúsum, er það spilað við jarðarför Grínistans, sem á að hafa skotið John F. Kennedy.