Haukur Steinn og Dvalinn unnu Stóru upplestrarkeppnina: Myndir
Haukur Steinn Jóhannsson, Nesskóla og Dvalinn Lárusson Snædal, Brúarásskóla fóru með sigur af hólmi í Stóru upplestrarkeppninni þegar úrslitakeppnir hennar voru haldnar heima í Héraði fyrir skemmstu.
Í keppninni eru það nemendur í sjöunda bekk grunnskólanna sem spreyta sig í upplestri á texta. Umferðirnar voru þrjár. Í fyrstu umferð úrslitakeppninnar var lesið upp brot úr Benjamín Dúfu eftir Friðrik Erlingsson, í annarri umferð ljóð eftir Þóru Jónsdóttur og ljóð að eigin vali í þeirri þriðju. Dómnefnd mat frammistöðu keppenda.
Héraðshátíðirnar eru tvær á Austurlandi. Önnur haldin á Fáskrúðsfirði fyrir Fjarðabyggð, Breiðdalshrepp og Djúpavogshrepp. Þar varð Haukur Steinn Jóhannsson, Nesskóla, í fyrsta sæti, Eva Dröfn Jónsdóttur úr grunnskóla Fáskrúðsfjarðar önnur og Tinna Rut Þórarinsdóttir, Nesskóla, þriðja.
Hin hátíðin var haldin á Egilsstöðum. Þar varð Dvalinn Lárusson Snædal úr Brúarásskóla efstur, Sigurlaug Eir Þórsdóttir úr Hallormsstaðarskóla önnur og Anna Guðný Elísdóttir, Vopnafjarðarskóla, þriðja.
Myndir: Austurfrétt og Skólaskrifstofa Austurlands