Haustkvöld á Héraði tíunda árið í röð
Verslanir- og þjónustuaðilar á Fljótsdalshéraði standa fyrir kvöldopnun, haustkvöldi, tíunda árið í röð á fimmtudagskvöld.„Þetta er upplagt fyrir alla þá sem finnst áhugavert að fara í notalegt bæjarrölt eða taka rúnt að kvöldlagi og gera góð kaup. Margir eru nú þegar farnir að huga að jólagjafainnkaupum,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, hjá Þjónustusamfélaginu á Héraði, sem aðstoðar fyrirtækin við skipulagið.
Hugmyndin með Haustkvöldinu er að búa til vettvang fyrir verslanir og þjónustuaðila til að bjóða gestum og gangandi að koma að kvöldlagi að kynna sér vörur og þjónustu.
Þjónustuaðilarnir leggja sig fram um að skapa notalega stemmingu með kertaljósum, luktum, tónlist, veitingum og tilboðum. Víðast hvar er opið til klukkan 22.
Heiður segir stemminguna fyrir kvöldinu, sem nú er haldið í tíunda sinn, góða. „Þátttakan er mjög góð. Fólk var aðeins óöruggara í fyrra út af Covid-faraldrinum.“