„Hef skrifað síðan ég var krakki“

Eftir að hafa ort ljóð í áratugi sendi Unnur Sólrún Bragadóttir frá sér sína fyrstu skáldsögu í sumar, Arfleifð óttans. Unnur sækir meðal annars fyrirmyndir í söguna úr eigin uppvexti í fátækri verkamannafjölskyldu á Austfjörðum.

Unnur Sólrún er fædd á Vopnafirði árið 1951 en fluttist með fjölskyldu sinni sex ára gömul til Eskifjarðar. Eftir flutningana vænkaðist hagurinn fljótt vegna aukinna atvinnumöguleika, líkt og gerist í sögunni.

„Það sem virkilega skipti miklu máli var að ég eignaðist vini sem ég á enn í dag. Ómetanlegur vinskapur. Rammi skáldsögunnar byggir á þessu en ég læt ímyndunaraflið renna óheft og bæði persónusköpun og framvinda einstakra atvika eiga sér enga stoð í veruleikanum.

Ofgnóttin í samfélaginu varð kveikjan að bókinni. Þó ég sé ekki orðin 100 ára þá hefur nánast orðið bylting. Lífið var einfalt, allt sem til var nýttist og það mikilvægasta var að hafa í sig og á,“ segir Unnur og bendir á að bætur hafi ekki verið til í nokkurri mynd á þessum tíma. Að auki hafi verið litið á slíkt sem mikla niðurlægingu og fólk ekki sótt í þær nema ýtrustu neyð.

Börn í dag eiga orðið svo mikið, yfirfullt af dóti en eru líklega ekkert glaðari. Ég velti þeirri spurningu fyrir mér, hvort ofgnótt yki hamingju. Þetta hafði ég í huga við bókarskrifin. Smám saman fékk ég vinkonur mínar og dætur í lið með mér. Þær lásu og þar sem þær hrifust óx þetta áfram,“ segir hún í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Lesin í sænska útvarpinu

Unnur á ekki langt að sækja rithæfileikana. Föðuramma hennar skrifaði mikið en systir hennar var Guðfinna Þorsteinsdóttir, þekkt sem Erla skáldkona. Sonur hennar var Þorsteinn Valdimarsson skáld, en margir kannast við verk hans og brjóstmyndina af honum í Hallormsstaðarskógi.

„Ég hef skrifað síðan ég var krakki. Níu ára gömul setti ég saman ljóðahefti. Ég fann það síðar á fullorðinsárunum og öll ljóðin voru rétt ort, allir stuðlar og höfuðstaðir á sínum stað. Ég held ég hafi haft þetta í blóðinu,“ segir Unnur Sólrún.

Unnur hefur í gegnum tíðina sent frá sér fjölda ljóðabóka, bæði á íslensku og sænsku en hún hefur búið í Svíþjóð síðastliðin þrettán ár. Í haust var ljóð eftir hana flutt í þættinum Ljóð dagsins (Dagens dikt) í sænska ríkisútvarpinu. „Það þykir mikill heiður. Um 100.000 manns hlusta á þekktan leikara lesa ljóðið og svo er spiluð falleg tónlist í lokin.“

Hársbreidd frá því að verða þingmaður

Eftir barnaskólann á Eskifirði fór Unnur Sólrún eins og margir aðrir Austfirðingar í Eiða. Þaðan hélt hún áfram í Menntaskólann í Reykjavík sem ekki þótt sjálfsagt, allra síst fyrir konur úr verkamannastétt, á þeim tíma. „Foreldrar mínir voru afskaplega stoltir af mér en undirtónninn var samt sá hvort það væri ekki best að ég fengi mér vinnu heima, í stað þessa basls.“

Unnur hélt enn lengra og lauk prófi í bókmenntum og hagsögu frá Háskólanum í Uppsölum. Hún kom síðan aftur til Íslands og fór að kenna, fyrst í Hrísey en fluttist síðan austur á Fáskrúðsfjörð með fjölskylduna. Þar dróst hún inn í stjórnmálastarf og var aðeins hársbreidd frá því að vera kjörin á Alþingi árið 1987 fyrir Alþýðubandalagið á Austurlandi.

„Ég og Skúli Alexandersson (af Snæfellsnesi) vorum inni til skiptis alla kosninganóttina en það endaði svo að hann fór inn. Líklega var það mér til góðs, því ég komst brátt að því að það hentaði mér betur að vinna sem bakhjarl en í sviðsljósinu.“

Vildi skikka þingmenn til að vinna lægst launuðustu störfin

Unnur tók sæti á Alþingi í þrjár vikur í febrúar árið 1988 sem varamaður Hjörleifs Guttormssonar, sem hafði verið í oddvitasætinu hjá Alþýðubandalaginu eystra. Þingræður hennar eru athyglisverðar. Sérstaklega er eftirminnilegt að við umræður um fjárlög ræddi hún lífkjör verkafólks og lagði til að þingmenn þyrfti að reyna aðstæður þess á eigin skinni. Hún lagði til að þeir yrðu skyldaðir til að fara heim í kjördæmi sín og vinna verkamannastörf á verkamannalaunum í tvær vikur.

„Bjórinn var aðalumræðuefnið á þessum tíma. Þá var þingsalurinn fullur. Síðan var farið að ræða um kjarasamninga og þá tæmdist hann. Mér fannst þingmenn vera svo fjarri veruleika fólks að ég taldi gott að þeir færu að þrífa á sjúkrahúsi eða stæðu við færibandið í frystihúsinu á lægstu laununum og áttuðu sig á hver raunveruleg staða svo margra var.

Þetta olli miklu fjaðrafoki. Eftir að ég hafði flutt tillöguna fór ég niður í matsal þingsins þar sem allir voru að tala saman og augljóst að þingmönnum var mikið niðri fyrir. Þegar ég kom í dyrnar sló grafarþögn á hópinn. Allt var gert til að koma tillögunni frá. Lögmaður þingsins var fenginn til að reyna að finna hnökra á henni svo hægt væri að vísa henni frá en tókst ekki. Ég var kölluð fyrir þingforseta og beðin um að draga tillöguna til baka sem ég neitaði að gera. Opinberlega þorði enginn að vera á móti tillögunni af ótta við atkvæðamissi. Fólk gæti ætlað að þingmenn teldu sig of fína til slíkra verka.“

Mynd: Jörgen Midander

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í síðustu viku. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.