Hefja viðburðahald á Eiðum með tónleikum Jónasar Sig
Tónlistarmaðurinn og fyrrum Eiðaneminn Jónas Sigurðsson verður í kvöld fyrstur til að koma fram í hátíðarsal gamla Eiðaskóla á vegum nýrra rekstraraðila þar. Næsti viðburður verður strax á morgun.„Okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt svo fyrst við höfum húsakynnin, hví ekki að nota þau?
Fyrir okkur sem erum af sömu kynslóð og Jónas kom ekki til greina að fá neinn annan þar til að spila á fyrsta giggið. Hann var mjög stoltur af því, en hann hefur áður boðist til að spila á Eiðum,“ segir Einar Ben Þorsteinsson, verkefnastjóri á Eiðum.
Hann er úr hópi nýrra eigenda sem keyptu húseignir sem áður tilheyrðu Alþýðuskólanum haustið 2021. Þeir hafa síðan unnið að endurbótum á húsnæðinu. „Við opnuðum farfuglaheimili á gömlu kvennavistinni í byrjun maí. Þar erum við með 26 herbergi. Við erum síðan með nokkrar íbúðir, sem eru bæði leigðar til ferðafólks og fólks sem býr þar að staðaldri. Við höfum í sumar einbeitt okkur að því að sinna farfuglaheimilinu vel og sníða af vankantana sem fylgja því að hefja rekstur.“
Hátíðarsalurinn hefur fengið smá andlitslyftingu. „Við erum búin að dekka salinn upp og koma upp myrkvunargardínum til að birgja stóru gluggana í salnum á meðan viðburðum stendur. Við stefnum síðan á að gera meira fyrir hann síðar. Það getur vel verið að við höldum áfram. Salurinn er vel nýtilegur og það væri gaman að gera eitthvað með fólkinu á svæðinu.“
Tónleikar Jónasar hefjast klukkan 20:00 en húsið opnar fyrr. Miðar eru aðeins seldir við inngang. Annað kvöld kemur Eyþór Ingi fram á sama tíma. „Hann er þekktur fyrir syngja slagara og taka eftirhermur. Svo er hann líka landsbyggðartútta,“ segir Einar.