Hefur gore-tex og gervihnetti fram yfir landpóstana

Einar Skúlason leggur á mánudagsmorgunn upp frá Seyðisfirði í fótspor landpóstanna eftir gömlu þjóðleiðinni norður til Akureyrar. Hann gerir ráð fyrir að vera um tvær vikur á leiðinni, eftir hvernig viðrar. Hægt er að senda jólakort með Einari til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.

„Ég hef síðan á unglingsárum haft mikinn áhuga á gömlum þjóðleiðum. Hverjir fóru þær, hvernig voru þeir klæddir, hvernig leið þeim? Ég komst að því að eina leiðin til að nálgast þetta almennilega væri að fara þetta á ólíkum árstímum og til þess dygði ekki ein ein dagleið.“

Einar, sem meðal annars er þekktur fyrir gönguforritið Wapp og að leiða gönguhópinn Vesen og vergang, hefur undanfarin ár þrætt gömlu póstleiðirnar. Í október 2016 gekk hann um 400 km leið frá Reykjavík til Ísafjarðar.

Gamlar alfaraleiðir


Að þessu sinni áætlar hann að ganga um 280 km frá Seyðisfirði til Akureyrar. Hann leggur af stað snemma á mánudagsmorgunn upp Vestdal áleiðis til Egilsstaða. Þaðan heldur hann síðan áfram að Fjallsseli í Fellum, Skeggjastöðum á Jökuldal og upp á Jökuldalsheiði í Snænautasel, á Möðrudalsöræfi að Möðrudal og Grímsstöðum. Þaðan fer hann áfram til Mývatns yfir í Bárðardal, meðfram Ljósavatnsskarði og loks yfir Vaðlaheiði til Akureyrar.

„Þetta eru gamlar alfaraleiðir. Landpóstarnir nýttu sér þær og þess vegna var farið að kalla þær póstleiðir. Ég geri það því fólk kannast við þær. Það var ekki alltaf farið alveg sama leiðin, það fór eftir aðstæðum.“

Veðrið ræður gönguhraðanum


Spáin fyrir næstu viku er ágæt, hæglætis veður þótt einhver snjór sé byrjaður að falla. „Ég reikna með að vera 12-16 daga á leiðinni. Ég get farið 20-35 km á dag en snjóalög og veður ráða miklu um hraðann. Ég veit um nokkra staði þar sem ég get fengið að gista inni á og reyni að nýta mér það en einhverjar nætur þarf ég að tjalda. Dagarnir eru stuttir og ekki skynsamlegt að vera marka klukkutíma á ferðinni í myrkri. Ég verð með 20 kg á bakinu sem getur haft áhrif á hvernig maður er stemmdur á 4-5 degi.

Undirbúningur er á áætlun. Ég er búinn að grandskoða leiðina og er að setja hnitin inn í GPS tækin. Ég undirbý matinn fyrir alla leiðina og skipti niður skömmtum. Ég keyri austur frá Akureyri og fæ að skilja eftir birgðir og gas á nokkrum stöðum þannig ég þurfi ekki að bera allt saman.“

Búið að brúa erfiðustu farartálmana


Landpóstarnir voru á ferðinni frá 1782 fram yfir aldamótin 1900. Einar hefur nýjustu tækni með sér í liði fram yfir þá. „Það er búið að brúa vatnsföll eins og Lagarfljót, Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum sem áður fyrr voru meiriháttar farartálmar. Símasamband er meirihluta leiðarinnar og ég get kallað eftir aðstoð um gervihnött ef ég þarf. Ég hef Gore-tex galla og skó þannig ég get verið þurr. Í pósttöskunni minni er ég með tjald, svefnpoka og dýnu.

Landpóstarnir höfðu hesta en yfir háveturinn var færðin stundum þannig að hestarnir gátu ekki farið. Þá reyndu póstarnir að ferðast létt, taka bara pósttöskurnar en freista þess að fá gistingu og mat á bæjum á leiðinni.“

Um slóðir Fjalla-Bensa


Einar verður með nokkur jólakort í sinni tösku en í gegnum vef ferðarinnar er hægt að panta jólakort til að senda með honum. Ágóðinn rennur til styrktar Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Síðasti möguleiki á að panta kortin er á laugardag. „Ég afhendi kortin í eigin persónu, annað hvort á leiðinni eða þegar ég kem til Akureyrar. Við hönnuðum kortin þannig þau væru létt svo að ég get vel tekið fleiri með mér.“

Þá fer Einar um söguslóðir Aðventu, bókar Gunnars Gunnarssonar um eftirleit Fjalla-Bensa, á þeim árstíma sem bókin gerist. „Ég hef oft lesið bókina og það kryddar ferðina að fara um þær slóðir á sama tíma. Ferðin sem Fjalla-Bensi fór og lýst var í tímaritinu Eimreiðinni, sem Gunnar las og notaði sem innblástur, var farin árið 1925. Síðan hugsar maður til Níels gamla landspósts og annarra sem fóru hér um.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.