Heiðra minningu Prins Póló á menningarhátíð barna og ungmenna

Hin vinsæla menningarhátíð BRAS, sem er ætluð börnum og ungmennum á Austurlandi fer nú fram í sjötta skiptið og dagskráin sjaldan verið fjölbreyttari. Á hátíðinni verður minningu tónlistarmannsins Prins Póló sérstaklega haldið á lofti.

Þema hátíðarinnar að þessu sinni er sjálfur hringurinn, sem er það form sem hefur hvorki upphaf né endi og skýrir það nafn hátíðarinnar sem er Hringavitleysa að sögn Halldóru Drafnar Hafþórsdóttur, skipuleggjenda hátíðarinnar. Að baki því heiti sé sú hugmynd að hafa gaman af hlutunum og sletta úr klaufunum.

„Þemu okkar á BRAS síðustu árin hafa verið svona aðeins í alvarlegri kantinum ef svo má að orði komast og verið að vinna með þemu á borð við sjálfsmyndina og loftslagsmál svo okkur fannst tími til kominn að einblína á skemmtun og gleði að þessu sinni.“

Sem fyrr koma fjölmargir aðilar að hátíðinni og þar bæði skólar, sveitarfélög, stofnanir og menningarmiðstöðvar í fjórðungnum. Á hverjum einasta stað verður eitthvað skemmtilegt í boði fyrir unga fólkið en hátíðin hófst reyndar síðla ágúst og mun standa fram í byrjun nóvember.

„Annað sem er sérstakt við hátíðina nú er að við ætlum sérstaklega að heiðra minningu Prins Póló eða Svavars Péturs Einarssonar sem lést í fyrra. Það var hann sem hannaði merki BRAS-hátíðarinnar á sínum tíma en stærri ástæða er sú að hann var svo mikill snillingur að sjá gleðina í hversdeginum og sjá alltaf dásamlegar hliðar á lífinu.“

Halldóra segir að minning hans verði heiðruð með tvennum hætti. „Í samvinnu við Havarí, Benna Hemm Hemm og Borko skal útsetja þrjú lög Prins Póló sérstaklega fyrir leikskólabörn. Svo heimsækir listafólkið alla leikskóla á Austurlandi í lok september, kynna og kenna lögin þrjú og segja frá verkefninu. Síðan er hugmyndin að leikskólakennarar æfi lögin með börnunum í vetur og þann 26. apríl á næsta ári þá ætla öll leikskólabörn á Austurlandi að syngja þessu þrjú lög á nákvæmlega sama tíma. Hitt er svo að við ætlum að setja upp diskótek á þremur mismunandi stöðum þann 14. október þar sem við ætlum að skemmta okkur og tralla og auðvitað verður tónlist Prins Póló þar í forgrunni.“

Finna má upplýsingar um dagskrána á fésbókarvef hátíðarinnar BRASAusturland. Plakat þessa árs var hannað af Hildi Björk Þorsteinsdóttur frá Djúpavogi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar