Heilbrigðisráðuneyti leitar úrræða í máli yfirlæknis
Álfheiður Ingadóttir ráðherra heilbrigðismála, segir að brugðist verði við hvatningu Ríkisendurskoðunar um að ráðuneytið gangi rækilega úr skugga um hvaða úrræðum viðeigandi sé að beita í máli yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar. ,,Ráðuneytið mun verða við þessu og kannað verður til hvaða úrræða þarf að grípa,“ segir Álfheiður. Heilbrigðisráðherra segir jafnframt að orðið verði við ósk Fjarðabyggðar um að sjálfstætt starfandi úttektaraðili ræði við stjórnendur og starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands um starfsumhverfi þeirra. Leitað verði lausna sem allir geti sætt sig við.