Heimilt að veiða 1272 hreindýr
Hreindýraveiðimenn fá að fella 1272 dýr á komandi veiðitímabili, 860 kýr og 412 tarfa. Þetta eru heldur færri dýr en leyft var að veiða í fyrra. Veiðikvóti ársins var gefinn út í vikunni.
Flest dýr má veiða á svæðum 1 og 2 eða 642. Þar eru leyfin líka dýrust. Tarfar á svæðunum kosta 125 þúsund krónur en kýr 70 þúsund. Á öðrum svæðum kosta tarfarnir 90 þúsund krónur en kýrnar 50 þúsund.
Á svæði 3 má veiða 70 dýr, 40 á svæði 4, 130 á svæði 5, 37 dýr á svæði 6, 175 dýr á svæði 7, 126 stykki á svæði átta og á svæði níu má fella 42 dýr.
Í fyrra var leyfilegt að veiða 1333 dýr en 1319 náðust. Mikil þoka á svæðinu drjúgan hluta veiðitímabilsins tafði fyrir veiðimönnum.