Heimsótti myndvefnaðinn sinn til Austurríkis

Hjónin Sólrún Friðriksdóttir og Ríkharður Valtingojer hafa rekið Gallerí Snærós á Stöðvarfirði frá árinu 1988 og er það eitt elsta listagallerí á landsbyggðinni.



Sólrún er innfæddur Stöðfirðingur en Ríkharður er frá Austuríki og eru þau bæði menntaðir myndlistamenn. Þau fluttu saman á æskuslóðir Sólrúnar árið 1985.

„Þarna vorum við með börnin okkar lítil og það æxlaðist þannig að við keyptum gamla æskuheimilið mitt. Við byrjuðum á því að gera það upp því það var ekki í góðu standi, auk þess sem við byggðum við þar sem okkur vantaði pláss fyrir vinnutækin okkar. Við það myndaðist smávegis auka rými sem kveikti í okkur þá hugmynd að opna gallerí sem við gerðum svo fyrir jólin 1988, en þetta var nú hálfgerð skyndiákvörðun,“ segir Sólrún.

Sólrún og Ríkharður hafa selt eigin verk og annarra í galleríinu gegnum tíðina. „Meginuppistaðan í dag eru grafíkverkin hans Ríkharðs og mín verk sem eru að mestu blönduð textílverk. Einnig koma inn í þetta Rósa dóttir okkar en mótar íslenska fugla í leir og maðurinn hennar Zdenek Patak er með myndirnar sínar hjá okkur, en hann er grafískur hönnuður. Auk þessa eru skartgripir sem Ríkharður gerir úr silfri og svörtum fjörusteinum, handmálaðar silkislæður eftir mig og fleira.“


Finnur vel fyrir auknum ferðamannastraumi

Sólrún segist finna vel fyrir auknum straumi ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra. Auk þess er nokkuð um að í galleríið komi vinnustaðahópar eða aðrir hópar sem eru í skemmti-og óvissuferðum.

„Aðsóknin var ósköp róleg til þess að byrja með og fólk sem keyrði í gegn var oftar en ekki mjög hissa að rekast hér á gallerí. Fyrstu sumurin gat ég unnið með, til dæmis vefað eða málað silki, en síðustu árin hefur það ekki gengið upp, trafíkin hefur verið það mikil.“


Galleríið gluggi út í heim

Sólrún segir galleríð vera nokkurskonar glugga út í heim og hafi þau hjónin myndað skemmtileg vinasambönd og tengslanet vítt og breitt.

„Við búum hérna þar sem flestir álítið töluvert afskekkt, en við fáum heimsóknir frá fólki allsstaðar að úr heiminum og höfum þannig myndað skemmtileg sambönd. Ég seldi til dæmis einu sinni stórt teppi, myndvefnað, til Austurríkis og fengum í kjölfarið heimboð frá kaupendunum og heimsóttum þau í fyrra – það var voða gaman að heilsa upp á teppið sitt í öðru landi.“

 

solrun fridriksdottir

 galleri snaeros

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar