Héldu jólastund við Helgustaðanámu
Hópur útivistarfólks kom saman við Helgustaðanámu í utanverðum Reyðarfirði í gærkvöldi og hélt þar var litla aðventustund. Hópurinn hefur hist reglulega í haust og farið út að ganga í myrkrinu.„Þetta er fimmta ferðin okkar og okkur langaði að gera eitthvað öðruvísi fyrir jólin. Við vorum með landvörð með okkur sem sagði frá námunni. Við kveiktum varðeld í fjörunni og ég söng nokkur lög fyrir fólkið.
Hver kom eitthvað matarkyns fyrir sig og aðra. Við dúkuðum upp í fjörunni og áttum góða stund,“ segir Díana Mjöll Sveindóttir á Eskifirði.
Díana kom í haust á fót hópi sem hún kallar „Út að leika.“ Hún segir tilgang hópsins vera að hvetja fólk til að fara út og hreyfa sig í vetrarmyrkrinu. „Ég vildi fá fólk til að njóta þess að vera úti í myrkrinu. Færðin utandyra getur verið alla veganna og við erum að æfa okkur í að verða betri, að ganga um með höfuðljós og slíkt,“ segir Díana Mjöll.
Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi þar sem silfurberg var grafið frá 17. öld fram á fyrri hluta þeirrar 20.. Silfurberg eru sérlega tærir kalsít steinar og skiptu miklu máli í vísindarannsóknum á 19. og 20. öld. Hún var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 og silfurbergið í henni er friðlýst í dag.
Díana Mjöll segir aðstæður við námuna hafa verið ágætar í gærkvöldi. „Við þurftum að fara í broddana efst, annars voru aðstæður. Hluti af þjálfuninni felst í að kenna fólki að vera búið þannig það geti verið lengur úti, með broddana í bakpokanum og drykk meðferðis.
Eina var að frostið var bara ein gráða. Það var spáð -10°C og var mun kaldara innar í firðinum en þarna virðist hafa verið einhver hitapollur. Það er svo gaman að vera úti í miklu frosti og stillu.“
Hópurinn við Helgustaðanámu í gærkvöldi. Mynd: Díana Mjöll Sveinsdóttir