Skip to main content

Heldur hátíð til minningar um systur sína

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. sep 2022 12:30Uppfært 02. sep 2022 16:10

„Þarna verðum við með bakkelsi og kaffi frá klukkan 15.30 frameftir degi og vonandi endar þetta á góðu partíi í fjósinu gamla í Seldal,“ segir Ína Dagbjörg Gísladóttir, sem skipuleggur Hölluhátíð í dalnum til heiðurs systur sinni Hallgerði Gísladóttur, sagn- og þjóðfræðingi, sem hefði orðið sjötug á þessum tímapunkti hefði henni auðnast líf til.

Hölluhátíðin fer fram þar sem þær systur ólust upp í hinum fallega Seldal en þar stendur eyðibýli með sama nafni þar sem koma skal saman á morgun laugardag. Þangað eru allir velkomnir segir Ína en fjölbreytt dagskrá fer fram í Seldal af þessu tilefni.

„Ég á von á stórum hópi fólks sem þekkti systur mína auk ættingja og vina. Fyrir utan að gefa út ýmsar bækur, og þar á meðal hina merku bók Íslensk matarhefð sem hefur verið uppseld um margra ára skeið, þá gaf hún líka út ljóðabók árið 2004 sem heitir Í ljós. Úr henni ætlum við að lesa og njóta saman en ljóðahópurinn Kvæðakonan góða sem samanstendur af vinkonum Hallgerðar verða með okkur á þessari stund og Baugalínur sömuleiðis. Ég er ekki í vafa að þarna verður glatt og gaman á hjalla og vonandi að aðrir hafi áhuga að deila gleðinni með okkur á morgun.“

Hallgerður Gísladóttir lést árið 2007 en lét eftir sig mikinn menningararf með bókum og skrifum um íslenska matarhefð langt aftur í tímann. Hún var mikil félagsvera, naut söngs og ljóða hvenær sem færi gafst. Hölluhátíðin er henni til heiðurs. Mynd Ína Dagbjört Gísladóttir.