Helgin: 50 ungmenni og biskupinn á æskulýðsmóti kirkjunnar

Biskup Íslands vísiterar Egilsstaðaprestakall um helgina og þjónar meðal annars í messu við lok æskulýðsmóts á Seyðisfirði. Karlalið Þróttar tekur á móti toppliði HK í Mizuno-deild karla í blaki og fríir flaututónleikar eru í Kirkju- og menningarmiðstöð Austurlands í kvöld.


Æskulýðssamband kirkjunnar á Austurlandi stendur fyrir árlegu móti sínu á Seyðisfirði um helgina og þangað er búist við um 50 austfirskum ungmennum. Mótinu lýkur með messu kl. 11 á sunnudag í Seyðisfjarðarkirkju þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir þjónar ásamt sr. Erlu Björk Jónsdóttur og Sigríði Rún Tryggvadóttur. Ungmenni verða áberandi í þjónustunni.

Opinn fyrirlestur um flóttamenn

Mótið er sambland af fræðslu, leik og skemmtun. Ýmsar smiðjur verða í boði, meðal annars prjónagraffítí, ball og hæfileikakeppni. Bæjarbúum býðst að líta við í bíósal Herðubreiðar klukkan 10 á laugardagsmorgun en þar verður Þórunn Ólafsdóttur, Austfirðingur ársins 2016, með fyrirlestur um reynslu sína af starfi með flóttamönnum. Með henni í för er unnusti hennar, Kinan, sem segir frá því hvernig sé að vera ungur flóttamaður.

Konudagsmessa

Biskupinn predikar einnig í konudagsmessu í Egilsstaðakirkju kl. 18: 00 á sunnudag. Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir þjónar fyrir altari og konur úr sóknarnefnd og messuþjónahóp aðstoða. Kvennakórinn Héraðsdætur verða sérstakir gestir og syngja nokkur lög.

Flautur

Í Tónlistarmiðstöð Austurlands, Eskifirði, verða í dag ókeypis tónleikar með Berglindi Maríu Tómasdóttur, flautuleikara. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Berglind María hefur nýtt austurferð sína til að hitta nemendur LungA-skólans á Seyðisfirði og fræða þá í tali og tónum.

Karlakór og rapp

Annað kvöld klukkan 20:00 verða miklir tónleikar í Egilsbúð með norðfirskum tónlistarmönnum. Á tónleikunum heyrast allt frá gömulum sjóaraslögurum, gamalla blús-standara til nýmóðins rapplaga auk karlakórs og lúðrahljóms. Meðal þeirra sem fram koma eru DDT – Skordýraeitur, Karlakórinn Ármenn, Bassablúsband Friðriks Vilhjálmssonar og hugsanlega Súellen.

Heimaleikir í blakinu

Karlalið Þróttar leikur tvo heimaleiki við topplið HK í blaki. Fyrri leikurinn verður á laugardag klukkan 16:00 en sá seinni á hádegi á sunnudag. Strax að þeim loknum tekur B-lið Þróttar á móti Fylki í þriðju umferð bikarkeppni kvenna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar