Helgin: Bæjarhátíðir á tveimur stöðum
Bæjarhátíðir standa nú yfir bæði á Stöðvarfirði og Vopnafirði, flamenco-hópur ferðast um fjórðunginn, keppt er í torfæru á Egilsstöðum og ný listsýning opnar á Seyðisfirði.Á Stöðvarfirði hófst bæjarhátíðin Stöð í Stöð á fimmtudag með Íslandsmótinu í Bubblubolta þar sem keppt var um Magga Margeirs bikarinn. Í gærkvöldi var þar fjölsóttur dansleikur með Páli Óskari.
Í dag er svæðið við Samkomuhúsið miðpunktur dagskrárinnar. Frá 13-16 er þar fjölskyldudagskrá með töframanni, tónlist og hoppuköstulunum en í kvöld hittist fólk þar og grillar saman.
Á Vopnafirði lýkur Vopnaskaki með Bustarfellsdeginum, sem haldinn er í 29. sinn þar sem safnið lifnar við.
Á Egilsstöðum hefst Isavia-torfæran nú klukkan 13:00. Allir helstu torfæruökumenn landsins mæta þar til leiks. Þar sem öllum sóttvarnatakmörkunum hefur verið aflétt er þetta fyrsta keppnin í tvö ár þar sem engar takmarkanir eru á áhorfendafjölda.
Flamenco-hópur Reynis Haukssonar er á ferðinni um svæðið, spilaði á Eskifirði í gær og verður á Borgarfirði í kvöld. Þar er einnig boðið upp á paella veislu að hætti heimamanna.
Í Neskaupstað stendur yfir tónleikaröðin Tónaflug. Rokksveitin Ham verður í Egilsbúð í kvöld.
Á Seyðisfirði opnar Garðar Bachmann Þórðarson sýninguna „Beðið eftir Tour de France“ í Gallerí Herðubreið. Garðar, sem er matreiðslumeistari, eldaði fyrir Skoda-liðið í Frakklandshjólreiðunum sumarið 2016. Á milli mála tók hann myndir af umhverfinu og fólki sem beið eftir hjólreiðagörpunum. Sýningin stendur til 23. júlí.