Skip to main content

Helgin: Bikar á loft á Vilhjálmsvelli

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. sep 2021 18:28Uppfært 17. sep 2021 18:29

Höttur/Huginn tekur á morgun á móti bikarnum fyrir sigur í þriðju deild karla á meðan Vopnfirðingar leika úrslitaleik til að sleppa við fall. Á Skriðuklaustri verður hægt að komast á stefnumót við listamann.


Höttur/Huginn tryggði sér um síðustu helgi sigur í þriðju deildinni og fær liðið því afhentan bikar fyrir árangurinn eftir loka leik deildarinnar. Hann verður á Vilhjálmsvelli klukkan 14:00 á morgun. Mótherjinn eru Ægir frá Þorlákshöfn sem er fyrir leikinn í öðru sæti og berst fyrir því að komast upp með Hetti/Huginn.

Á sama tíma hefst leikur Einherja og Víðis á Vopnafjarðarvelli. Vopnfirðingar eru í þriðja neðsta sæti deildarinnar en sækja til sigurs til að tryggja sæti sitt í deildinni. Í annarri deild mætast Leiknir og Fjarðabyggð á Eskjuvelli.

Hefð og endurnýjun er heitið á textílsýningu norsku listakonunnar Ingrid Larssen á Skriðuklaustri sem stendur í til sunnudags á Skriðuklaustri.

Ingrid kemur frá Vesterålen í Norður-Noregi og hefur síðustu 20 ár hafið aftur til vegs og virðingar gamlar saumahefðir eins og vöfflusaum. Hún litar sjálf sín efni og á sýningunni má til dæmis sjá silki litað með ígulkerum, lúpínu og rabarbararót.

Gestum er boðið á stefnumót við listamanninn í gallerí Klaustri þessa á milli kl. 14-16 og geta fylgst með henni við sauma og fræðst um handverkið. Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17.

Á Tehúsinu á Egilsstöðum mætir Jónsi, kenndur við Svört föt, og spilar í kvöld og Atomik Popotin, sem leikið hefur víða um Evrópu undanfarin 15 ár, þeytir þar skífum annað kvöld.

Þá má ekki gleyma því að frambjóðendur til Alþingis eru á ferð og flugi í fjórðungnum og standa fyrir opnum fundum, óformlegum samræðum og skemmtiviðburðum.