Helgin: Búinn að safna austfirskum bílum saman á sýningu

Austfirskir bílaunnendur hafa nóg að gera um helgina. Sýning á úrvali austfirskra bifreiða verður hluti af dagskrá Hernámsdagsins á Reyðarfirði og á Héraði fer fram Norðurlandamót í torfæru.

Bílarnir koma flestir af fjörðunum og Héraði en líka frá Húsavík og Akureyri. Við verðum með fornbíla, til dæmis 1930 módel af Ford sem gerður var upp hér á Reyðarfirði en hefur staðið inni í skúr síðustu ár og nýja bíla frá tveimur bílaumboðum,“ segir Gísli Birgir Gíslason sem stendur fyrir sýningunni.

Gísli er mikill áhugamaður um bíla, kom að stofnun Fornbílafélags Íslands og heldur ásamt félaga sínum úti hópnum Gamlir bílar 20 ára og eldri á Facebook en í honum eru tæplega 18 þúsund manns.

Á sýningunni verða 60-70 bílar. Gísli hefur lagt talsverða vinnu í að finna bíla á sýninguna og meðal annars nýtt ferðir sínar sem bílstjóri um Austfirði til að horfa eftir álitlegum vögnum. Sýningin stendur frá 11-17 á sunnudag í Fjarðabyggðarhöllinni.

Sýningin er hluti af Hernámsdeginum á Reyðarfirði. Klukkan 14 byrjar dagskrá í Stríðsárasafninu. Þar verður boðið upp á tónlist, kökur og Einar Þorvarðarson segir sögur sem tengjast lífinu á stríðsárunum á Reyðarfirði.

Á Fljótsdalshéraði fer fram Norðurlandamót í torfæruakstri. Keyrt verður frá 13-17 í Mýnesgrúsum bæði laugardag og sunnudag og Norðurlandameistari krýndur á sunnudag. Umferðin á laugardag gildir einnig til stiga í Íslandsmeistaramótinu.

Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir hjá Akstursíþróttafélaginu Start, sem stendur að baki keppninni, segir von á glæsilegum tilþrifum. Til leiks eru skráðir 38 keppendur, þar af fjórir erlendir. Áhugasamir geta skoðað torfærutækin við verslun Bílanaust milli 15 og 18 í dag.

Bæjarhátíðin Stöð í Stöð hófst í gærkvöldi með tónleikum í kirkjunni. Í kvöld verður grillað í bænum og hátíðin sett formlega. Á morgun er hátíðardagskrá og haldið upp á 90 ára afmæli UMF Súlunnar. 

Tónleikar verða í Havarí að Karlsstöðum í Berufirði og Fjarðaborg á Borgarfirði eins og svo margar helgar í sumar. Snorri Helgason spilar í Fjarðarborg í kvöld og hitar svo upp fyrir Valdimar í Havarí annað kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar