![](/images/stories/news/2017/einar_mikael_galdramadur.jpg)
Helgin: Einar Mikael ætlar að galdra fyrir Austfirðinga
Töframaðurinn Einar Mikael verður á ferð um Austurland næstu vikuna með nýja sýningu sem hann kallar Töfraheim. Gettu betur lið ME mætir Flensborg á sama tíma og Höttur getur tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni í körfubolta að ári.
„Ég er búinn að setja saman öll mín bestu atriði 8 ár af töfrum í eina stórkostlega fjölskylduupplifun. Sýning saman stendur af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Ég leyfi líka áhorfendum að taka virkan þátt í öllu sem ég geri og það er alltaf einhvern sem fær að koma uppá svið og aðstoða mig,“ segir Einar Mikael í tilkynningu.
Hann hefur undanfarin ár verið að hasla sér völl erlendis, bæði í Kína og Las Vegas, en segist helst vilja vera hér á landi og skemmta. Hann hefur rúntinn í Herðubreið á Seyðisfirði í kvöld og lýkur honum á Fáskrúðsfirði á miðvikudag.
Lið Menntaskólans á Egilsstöðum í Gettu betur mætir Flensborgarskólanum í Hafnarfirði í fjórðungsúrslitum keppninnar klukkan níu í kvöld í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Þetta er í áttunda skiptið sem ME kemst í sjónvarpið og þrisvar sinnum hefur liðinu tekist að komast í undanúrslitin.
Þá gæti körfuknattleikslið Hattar verið búið að tryggja sér sæti í úrvalsdeild að ári. Til þess þarf liðið að vinna Ármann í íþróttahúsi Kennaraháskólans. Leikurinn hefst klukkan 19:15.
Kvennalið Þróttar í blaki tekur á móti HK, sem er í efsta sæti Mizuno-deildarinnar klukkan 14:00 á sunnudag. Fjarðabyggð og Höttur mætast í B-deild Lengjubikars karla í Fjarðabyggðarhöllinni á sama tíma á morgun.
Þá stendur frjálsíþróttadeild Hattar fyrir opnu móti sem hefst klukkan 10:00 í fyrramálið í Íþróttamiðstöðinni Egilsstöðum.
Dagskrá Einars Mikaels:
Seyðisfjörður föstudaginn 3 mars Herðubreið kl 19:30
Neskaupstaður laugardagurinn 4 mars Nesskóli kl 14:30
Eskifjörður laugardagurinn 4 mars Eskifjarðarskóli kl 19:30
Breiðdalsvík sunnudagurinn 5 mars Breiðdalsvík kl. 14:30
Reyðarfjörður sunnudagurinn 5 mars Reyðarfjörður kl. 19:30
Vopnafjörður mánudagur 6 mars Mikligarður kl.19:30
Egilsstaðir þriðjudagur 7 mars Egilsstaðaskóli kl: 19:30
Fáskrúðsfjörður miðvikudagurinn 8 mars Félagsheimilið kl: 19:30