Helgin: Fjallahjólaferð, grínisti og draumaheimar

Grínistinn Stefán Ingvar Vigfússon heimsækir Austurland um helgina með glænýja uppistandssýningu sem hann kallar Sjónskekkju. Ferðafélögin á svæðinu verða á ferðinni, bæði gangandi og á hjólum.

Stefán Ingvar ferðast þessa dagana um landið með nýtt uppistand og verður á Tehúsinu á Egilsstöðum á morgun klukkan 20:00. Stefán Ingvar, sem er þekktur úr grínhópnum VHS, er með lausa augasteina sem hefur haft ýmis áhrif á hann, ekki mátt æfa fótbolta eða verða flug og almennt þá sér hann allt skakkt.

Listafólkið Arlene Tucker, Tess Rivarola og Charles Ross standa fyrir sýningunni „Að búa til draumaheima“ í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 16:30 í dag. Gestir geta bæði notið sýningarinnar en líka tekið þátt í henni. Sýningin er fyrsti viðburðurinn í röð þeirra sem mynda Barnamenningarhátíð Austurlands, BRAS.

Ferðafélagsfólk fyllist trúlega valkvíða í fyrramálið því í boði eru annars vegar fjallganga, hins vegar fjallahjólaferð.

Göngufólki býðst að fara á Staðarfjall í Borgarfirði í fylgd Bryndísar Skúladóttur. Sameinast verður í bíla við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum klukkan 9:00 í fyrramálið.

Fyrir fjallahjólafólkið er ferð af Öxi niður í Fossárdal undir leiðsögn Hafliða Sævarssonar og Guðrúnar Ásgeirsdóttur. Hist er á malarplani um 500 metra norður af veðurathugunarstöðinni á Öxi Héraðsmegin klukkan tíu og hjólað þaðan um 40 km eftir slóða niður í Fossárdal þar sem slegið verður upp grillveislu.

Suður-Ameríkupartý verður á Aski á morgun þar sem hljómsveitin Kaos de Venezuela kemur á sviðið klukkan 23:30. Sveitin kom fram á Menningarnótt í Reykjavík um síðustu helgi.

Á Beituskúrnum í Neskaupstað kemur fram spænska sveitin Ataxía. Lofað er töfrandi kvöldi með sérstakri tónlist þar sem meðal annars er sótter í austurlenskar tónlistarhefðir.


Styrkleikarnir, áheitaganga fyrir krabbameinsfélögin í landinu, hefjast á Vilhjálmsvelli á hádegi á morgun. Gengið verður í heilan sólarhring.

Mynd: Ferðafélag Fjarðamanna  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar