Helgin: Flugslysaæfing á Egilsstöðum

Við búið er að nokkurt umstang verði á Egilsstöðum fyrri partinn á morgun þegar fram fer æfing á viðbrögðum við flugslysi á flugvellinum. Nokkrir menningarviðburðir eru framundan um helgina sem er heldur rólegri en þær síðustu.

Gert er ráð fyrir að um 150 manns taki þátt í æfingunni sem hefst klukkan 11 í fyrramálið og stendur í um fjóra tíma.

Æfingin er umfangsmikil. Kveikt verður í eftirlíkingu af flugvélaflaki og munu fjölmargir sjálfboðaliðar leika slasað fólk á vettvangi.

Þetta er gert til að æfa viðbragðsaðila á svæðinu í að bregðast við hvers konar hópslysum sem orðið geta á Egilsstöðum og í nágreni. Meðal þátttakenda í æfingunni er starfsfólk Egilsstaðaflugvallar, lögregla á svæðinu, slökkvilið, sjúkraflutningafólk, starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Austurlands, björgunarsveitir á svæðinu, fulltrúar Rauða krossins og rannsóknaraðilar auk annarra.

„Það má draga heilmikinn lærdóm af æfingum sem þessum," segir Friðfinnur Freyr Guðmundsson, æfingastjóri og verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia í tilkynningu.

„Æfingin er haldin fyrir alla þá aðila sem koma að viðbúnaði ef vá ber að höndum hér á svæðinu. Miklu skiptir að allur þessi hópur sé samtaka og því er afskaplega mikilvægt að halda æfingar sem þessar reglulega."

Menning og íþróttir


Ingibjörg Turchi, bassaleikari og Hróðmar Sigurðsson, gítarleikari, halda tónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði klukkan 20:30 í kvöld. Þau hafa unnið saman og með öðrum síðustu ár, listamönnum allt frá Bubba Morthens yfir í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Ingibjörg gaf út sína fyrstu plötu í fullri lengd árið 2020 og var hún meðal annars valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokki djass- og blústónlistar. Hróðmar gaf út sína fyrstu plötu 2021 og var í kjölfarið valinn bjartasta vonin í djass-og blúsflokki á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Jónsi mætir á Tehúsið klukkan 21:15 kvöld en Roni Szabo á Ask klukkan 22:30 á morgun og flytur tónlist úr áhrifum úr ýmsum áttum.

Fjallgönguklúbburinn Fjallhress legur af stað frá N1 á Egilsstöðum klukkan 8:00 í fyrramálið til að ganga upp á Smátindafjall sem er upp af Norðurdal Breiðdals. Einnig er hægt að mæta að upphafsstað gönguleiðarinnar yfir Reinhaldsheiði innan við bæinn Gilsá klukkan 9:45.

Menningarstofa Fjarðabyggðar stendur fyrir kvöldnámskeiðum í myndlist næstu vikurnar. Kennt verður fjögur skipti í Neskaupstað, á Reyðarfirði og Stöðvarfirði. Fyrsta kvöldið er í Þórsmörk á Norðfirði á mánudagskvöld. Á þriðjudag er kennt í Austurbrú á Reyðarfirði og loks í Grunnskóla Stöðvarfjarðar á þriðjudag. Hreinn Stephensen leiðbeinir.

Úrvalsdeildarlið Þróttar í blaki eiga útileiki á morgun. Karlaliðið spilar við Hamar í Hveragerði en kvennaliðið við Álftanes.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.