Helgin: Frá orgelkrökkum yfir í þungarokk
Orgelkrakkahátíð verður slegið upp á nokkrum stöðum í fjórðungnum yfir helgina. Á Norðfirði spilar þungarokkssveitin Rock Paper Sisters sem að miklu leyti sem skipuð hljóðfæraleikurum með tengsl við Austurland.Fyrsta orgelkrakkahátíðin verður á Norðfirði á hádegi í dag. Hún verður síðan í Egilsstaðakirkju 13:00 á morgun og á Seyðisfirði klukkan 11:00 á sunnudagsmorgunn.
Guðný Einarsdóttir og Sigrún Magna Þorsteinsdóttir leiða dagskrána sem hefst ýmist á tónleikum með þekktum lögum eða orgelsögu þar sem sagt er frá pípunum í orgelinu. Síðan er vinnusmiðja þar sem börn setja saman pípuorgel sem þau spila að lokum á.
Nokkrir viðburðir eru undir merkjum barnamenningarhátíðarinnar Bras yfir helgina. Húladúllan verður með sirkussmiðju í Valhöll frá 17-18 í dag. Smiðjan er ætluð börnum í 1. – 4. bekk sem fá að spreyta sig á fjölbreyttum sirkusáhöldum og læra trix.
Húladúllan verður síðan með sýninguna Ljósagull í Egilsbúð í Neskaupstað klukkan 11:30 á morgun. Um er að ræða frumsamið ævintýri sem gætt er lífi með ljósum af ýmsu tagi og loks þátttöku barnanna.
Á Seyðisfirði stendur Tækniminjasafnið fyrir listasmiðju fyrir börn á aldrinum 5-10 ára í gömlu Vélsmiðjunni. Smiðjan er jafnframt hluti af haustroða, haust- og uppskeruhátíð á Seyðisfirði. Þungamiðjan í þeirri hátíð er annars vegar listsýning og kynning á nýjum vörum Ró í Herbugalleríi frá 12-16, hins vegar markaðsdagur á sama tíma í Herðubreið. Úrslitin í sultukeppninni verða kynnt þar klukkan 14:30.
Hljómsveitin Rock Paper Sisters fylgir um þessar mundir eftir plötunni „One in a Million“ sem kom út í ágúst. Sveitina skipa meðal annarra Þorsteinn Árnason, bassaleikari frá Norðfirði, Þórður Sigurðsson, fyrrum organisti Norðfjarðarkirkju og Jón Björn Ríkarðsson sem oftast er kenndur við Brain Police en vann um árabil í álverinu á Reyðarfirði. Með þeim eru gítarleikarinn Davíð Sigurgeirsson og söngvarinn Eyþór Ingi. Sveitin kemur fram í Egilsbúð í Neskaupstað og er opnað þar klukkan 21:00. Tónleikarnir eru hluti af Tónaflugi í Neskaupstað.
Á sunnudag verður 120 ára afmæli Vopnafjarðarkirkju fagnað með messu klukkan 14. Messan slær jafnframt botninn í Vinavikuna. Kvenfélagskaffi er á eftir.
Í úrvalsdeildunum í blaki spilar Þróttur á móti KA. Leikið er bæði í karla og kvennaflokki á Akureyri á sunnudag.
Mynd: Ómar Bogason