Helgin: Frumsýning, fjölmenning á Rótarýdegi, uppistand og leikgleði

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir í kvöld leikverkið Allra meina bót sem mun síðan flakka um Austurland næstu vikur. Rótarýklúbbarnir á Héraði og Egilsstöðum taka þátt í Rótarýdeginum, Pétur Jóhann verður með uppistand og UÍA býður fólki að koma að leika sér.


Leikritið Allra meina bót er gamanleikrit sem gerist á ónefndri skurðstofu. Þar ræður ríkjum ókrýndur konungur allra skurðlækna, sem sker allt sem hníf festir á.

Þangað kemur illa haldinn ungur maður með rannsóknarlögregluna á hælunum vegna fjársvikamáls, en hann átti fyrirtæki, sem urðu gjaldþrota. Þegar á sjúkrastofuna kemur lendir ungi maðurinn í atburðarás, sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Einar Rafn Haraldsson leikstýrir og fer með eitt af aðalhlutverkunum – að minnsta kosti í fyrstu sýningunum en verkið er eftir Jón Múla og Jónas Árnason. Það flakkar síðan um fjórðunginn og verður sýnt í Miklagarði á Vopnafirði á sunnudagskvöld en verður síðan á næstu þremur vikum sýnt í Fljótsdal, Hjaltastaðaþinghá á Brúarási, Iðavöllum og Borgarfirði.

Á Héraði verður Rótarýklúbburinn haldinn á Bókakaffi í Fellabæ á morgun milli klukkan 14-16 undir kjörorðinu „Fjölmenning.“ Ýmislegt verður til skemmtunar og umræðu, tónlist, og fróðleg stutt erindi um ýmis efni, svo sem íslenskunám fyrir útlendinga, fjölmenningarstefnu sveitarfélagsins, verkefni á vegum Rauða krossins og fleira.

Í Neskaupstað er slagorðið „fræðumst um hvert annað.“ Viðhorfi og reynslu erlendra íbúa staðarins verða gerð skil á fundi sem haldinn í safnaðarheimilinu á sunnudag milli klukkan 2 og 4. Erlendir íbúar segja frá sínum aðstæðum og samskiptum auk þess sem nemendur úr Tónskólans Neskaupstaðar flytja tónlist.

Pétur Jóhann Sigfússon kemur austur með sýningu sína „Óheflaður“ Hann skemmtir á Vopnafirði í kvöld og Neskaupstað annað kvöld. Sýngin tekur um tvo tíma og er samin af honum sjálfum. Hann hefur flakkað um landið með hana undanfarið ár og hlotið gríðargóðar viðtökur.

Ungmennafélagshreyfingin stendur fyrir námskeiðinu „Leikum okkur“ á Norðfirði og Egilsstöðum um helgina en á ferðinni eru Jörgen Nilsson, tómstundafulltrúi UMFÍ og Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi.

Sabína verður með félagsmálafræðslu í Verkmenntaskóla Austurland frá 10-13 á morgun þar sem farið verður yfir grunnþætti í fundahaldi og ræðumennsku.

Jörgen tekur síðan við klukkan tvö og ræðir um mikilvægi þess að líta jákvæðum augum á verkefni og hindranir, auk þess að kenna ýmiskonar hópeflisleiki og sprell sem eru vel til þess fallin að auka á leikgleði og kæti.

Hann verður síðan aftur með námskeið sitt 10-12:30 á sunnudag í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Klukkan eitt verður Sabína Steinunn með námskeið sitt Færni til framtíðar sem Sabína Steinunn fjallar um gildi útivistar og hreyfingar í uppeldi barna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar