Helgin: Höttur/Huginn getur komist upp um deild

Lið Hattar/Hugins í þriðju deild karla í knattspyrnu getur um helgina tryggt sér sæti í annarri deild næsta sumar. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir leikur í kvöld til úrslita í annarri deild kvenna og barnamenningarhátíðin Bras heldur áfram um helgina.

Hött/Huginn vantar nú aðeins einn sigur til að tryggja sæti sitt í annarri deild. Eftir frábæra byrjun hefur fjarað undan liðinu og það aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum.

Það varð til þess að önnur lið söxuðu á forskotið. Höttur/Huginn var áfram efst en það skekkti myndina að liðin í næstu sætum áttu leiki til góða. Nú hafa leikirnir jafnast út og öll lið deildarinnar leikið 20 leiki og eiga þar með öll tvo eftir.

Höttur/Huginn er með 39 stig stig í efsta sætinu, Ægir Þorlákshöfn í öðru með 38, KFG úr Garðabæ í þriðja með 35, Elliði úr Árbæ fjórða með 34 og Sindri með 33. Tölfræðilega geta öll þessi lið náð Hetti/Huginn eða jafnað.

Höttur/Huginn mætir ÍH í Hafnarfirði á morgun. Með sigri myndi Höttur/Huginn tryggja að KFG, Elliði og Sindri gætu ekki lengur náð liðnu að stigum, óháð þeirra úrslitum og þar með tryggt sér upp um deild.

Tvöfaldur gróði?

Vopnfirðingar munu væntanlega styðja nágranna sína ákaft því þeir eru í baráttu við ÍH í hinum enda deildarinnar, fallsvæðinu. Einherji spilar á sama tíma við botnlið Tindastóls á útivelli. Vinni Einherji og ÍH tapi er sæti Einherja í deildinni tryggt.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir leikur í kvöld til úrslita gegn Fjölni í annarri deild kvenna. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og er leikinn í Boganum á Akureyri. Hann verður sýndur beint á YouTube-rás Þórs. Bæði lið hafa tryggt sér sæti í fyrstu deild að ári.

Í annarri deild karla tekur Leiknir á móti Njarðvík á morgun en Fjarðabyggð sækir Reyni Sandgerði heim.

Tónleikar, mjöður og menningarhátíð

Á Lindarbakka á Borgarfirði eystra verður smiðja með opinn efnivið fyrir börn og unglinga milli klukkan 13-15 á morgun, laugardag. Smiðjan er haldin í tengslum við BRAS – Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er ungt fólk og umhverfi þar sem leitað er til gullabúa barna fyrri tíma. Í þeim anda verður margvíslegur efniviður til að skapa úr við Lindarbakka á morgun.

Sinfóníuhljómsveit Austurland stendur fyrir tónleikum klukkan 16:00 á sunnudag sem bera titilinn La dolce vita en þar verður leikin tónlist sem tengist Miðjarðarhafinu. Gítarleikarinn Svanur Vilbergsson frá Stöðvarfirði leikur þar einleik með sveitinni. Hljómsveitarstjóri verður Guðmundur Óli Gunnarsson og konsertmeistari Zsuzsanna Bitay.

Á Hildibrand koma Jonni og Jitka fram á annað kvöld klukkan 21:00. Þau leika þar bæði frumsamin lög og lög eftir aðra sem þau hafa sniðið að sínum stíl.

Á Aski á Egilsstöðum verður nýr bjór frá Múla kynntur til sögunnar klukkan 21:30 á morgun. Bjórinn ber nafnið Októfer. Frír glaðningur verður fyrir alla þá sem mæta í Októberfestskrúða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.