Helgin: Hraðstefnumót bíla, Ormsteiti, Fílalag

Bílaumboðið Askja leggur land undir fót og kemur við á tveimur stöðum á Austurlandi um helgina. Héraðshátíðin Ormsteiti er að hefjast og hlaðvarp lifnar við á Tónaflugi í Neskaupstað.

„Hraðstefnumót“ er yfirskrift bílasýningar sem bílaumboðið Askja stendur fyrir þessa dagana. Þarna er um að ræða stærstu bílasýningu sem umboðið hefur ferðast með um landið. Um er að ræða bíla frá Mercedes Benz, Kia, Honda og Smart.

Alls verða 14 bílar til sýnis þar sem áherslan verður á nýja orkugjafa en 13 af 14 eru búnir rafmagni á einhvern hátt. Um er að ræða rafbíla, tengiltvinnbíla og dísilbíla, en skattaívilnanir af rafbílum falla úr gildi um áramót.

„Allir þessir bílar henta landsbyggðinni fullkomlega og gerir fólki kleift að taka skrefið til orkuskipta“, segir Egill Örn Gunnarsson, einn verkefnastjóra Hraðstefnumóta Öskju á landsbyggðinni.

Bílarnir verða við Bílaverkstæði Austurlands á Egilsstöðum í dag en við N1 á Reyðarfirði á morgun. Sýningarnar standa frá 12-16.

Dagskrá Héraðshátíðarinnar Ormsteitis hefst í kvöld með tónleikum á börum Egilsstaða. Á morgun er komið að réttardegi í Melarétt í Fljótsdal. Rekið er úr safnhólfinu klukkan 11 en byrjað að rétta á hádegi. Um kvöldið er síðan réttarball í Végarði.

Á morgun er einnig lífræni dagurinn í Vallanesi frá 13-17 en á sunnudag göngumessa frá Kirkjuselinu í Fellabæ klukkan 13.

Í Vök Baths verður hægt að koma og veiða frá 21:30-23:30 á laugardagskvöldið.

Félagarnir Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason verða í Egilsbúð í kvöld með lifandi útgáfu af hlaðvarpsþætti sínum Fílalag. Þar taka þeir fyrir eitt lag og kryfja tilurð þess, sögu höfunda og flytjenda auk tíðarandans þegar tónlistin varð til. Húsið opnar 20:30.

Reykjavíkurdætur eru á ferðinni um bókasöfn Múlaþings með rappsmiðju. Fullbókað er í smiðju á Egilstöðum en dæturnar verða líka á Seyðisfirði á sunnudag og Djúpavogi og mánudag.

Keppni í Íslandsmótinu í knattspyrnu er að ljúka. Einherji spilar gegn Völsungi á Húsavík í annarri deild kvenna klukkan 16:45. Einherji á enn möguleika á að komast upp um deild.

KFA getur einnig komist upp úr annarri deild karla. Liðið tekur á móti Sindra klukkan 14:00 á morgun. KFA er sem stendur í þriðja sæti, jafnt ÍR að stigum en með 5 mörkum lakara markahlutfall. Það þýðir að KFA þarf að vinna og treysta á að ÍR vinni ekki, eða andstæðing sinn með sex mörkum meira. ÍR spilar á sama tíma við Hött/Huginn á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.