Helgin: Kosningar og sjómannastuð

Fyrir utan þá staðreynd að fyrsta helgin í júní er jafnan fyrsta stóra ferðahelgi Íslendinga innanlands hvert sumar og veðurspáin er hvað vænlegust næstu daga austanlands eru það kosningar til nýs forseta lýðveldisins og Sjómannadagurinn sem eru hápunktar helgarinnar.

Í Fjarðabyggð opna kjörstaðir klukkan 9 í fyrramálið og verða opnir fram til 22 annað kvöld alls staðar nema á Mjóafirði þar sem dyrunum verður lokað klukkan 14.

Í Múlaþingi er hins vegar aðeins mismunandi hvenær kjörstaðir opna og loka. Á Borgarfirði eystri opnar 9 og lokar 17, á Djúpavogi opnar 10 og lokar 18 en bæði á Seyðisfirði og á Héraði verður hægt að greiða atkvæði fram til klukkan 22.

Á Vopnafirði er kosið í safnarheimili kirkjunnar milli klukkan 10 og 20.

Býsn í boði Sjómannadaginn

Formlega er Sjómannadagurinn á sunnudaginn kemur en í Fjarðabyggð breyta menn aðeins til og taka jafnvel gott forskot á sæluna. Þannig hefur óformleg hátíðardagskrá verið í gangi í Neskaupstað og á Eskifirði frá fimmtudeginum og verður daglega fram á sunnudaginn. Þá halda menn daginn hátíðlegan á Fáskrúðsfirði á morgun laugardag en ekki á sunnudag. Dagskrána í heild má sjá hér.

Vopnfirðingar halda Sjómannadaginn hátíðlegan á sunnudaginn kemur og hefst dagskrá þar klukkan 10 og stendur fram á miðjan dag.

Í Múlaþingi er dagskrá tileinkuð sjómönnum landsins einnig lengri en einn dag víða. Á Djúpavogi hefst óformleg dagskrá í dag þó meginhátíðin sé á sunnudaginn kemur. Á Seyðisfirði blanda menn saman kosningadeginum og sjómannahátíðardagskrá þó reyndar verði Sjómannadagsmessa á sunnudagskvöld. Dagskrá má finna á viðburðavef Múlaþings hér.

Spáin lofar ágætu

Raungerist veðurspá Veðustofu Íslands yfir helgina verður sallafínt veður í fjórðungnum öllum kosningadaginn. Sól stóran part dags víðast hvar, hitastigið nær allt upp í 17 stig síðdegis og vindur meira og minna hægur. Svipaða sögu að segja af Sjómannadeginum þó hitinn verði lítið eitt lægri eða kringum 13 stig að meðaltali. Vindurinn gerir þó meira vart við sig með þetta 6 til 8 metra á sekúndu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar