Skip to main content

Helgin: Kvæðamenn og körfubolti

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2022 15:39Uppfært 22. apr 2022 18:35

Landsmót kvæðamanna, tónleikar, pólsk listahátíð og leikur um sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik er meðal þess sem í boði er á Austurlandi um helgina.


Kvæðamenn hittast á Gistihúsinu á Egilsstöðum um helgina. Í kvöld eru þar tónleikar, á morgun námskeið og kvöldvaka annað kvöld.

Stemma, landsfélag kvæðamanna, var stofnað árið 2013. Aðildarfélögin eru átta, þar á meðal Félag ljóðaunnenda á Austurlandi. Landsmótið hefur verið haldið árlega frá 2013, nema það féll niður 2020. Það var síðast haldið á Egilsstöðum 2016 og er að sögn Magnúsar Stefánssonar, hjá Félagi ljóðaunnenda, enn í minnum haft. „Það er reiknað með að mótið nú verði álíka skemmtilegt – og það verður skemmtilegt.“

Norðfirski rapparinn Ztonelove heldur tónleika á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld, sem hefjast klukkan 22:00. Þar flytur Ztonelove frumsamin lög.

Á sunnudag býður Rótarýhreyfingi á Íslandi til hátíðartónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Þar spila píanóleikarinn Alexander Smári Edelstein og fiðluleikarinn Sólveig Vaka Eyþórsdóttir. Þau hafa bæði fengið styrk frá hreyfingunni til náms síns erlendis. Þá kemur einnig fram listahópurinn Austuróp.

Vor/Wiosna

Pólska listahátíðin Vor/Wiosna heldur áfram með fjölbreyttri dagskrá í Herðubreið á Seyðisfirði morgun. Hún hefst klukkan 11 með fjölskyldustund þar sem hljóðheimar verða skoðaðir með nýstárlegum hljóðfærum. Adam Switala, aðjúnkt við Háskóla Íslands og tónlistarmaður, leiðir stundina.

Milli 16-17 á morgun verða sýndar níu teiknaðar stuttmyndir í leikstjórn kvenna. Strax eftir hana verður sýningin: Stock for Future: Emotions opnuð. Stefan Kornacki sýnir þar innsetningarverk sem byggir á viðtölum sem hann hefur tekið við fólk í samfélaginu í apríl en hann hefur dvalið í listamannaíbúð á Egilsstöðum.

Síðast á dagskrá eru tónleikar klukkan 20:00 með Mammoth Ulthana, dúó pólsku avant-garde tónlistarmannanna Jacek Doroszenko og Rafal Kolacki sem flytja þar tónverk sem þeir hafa unnið sérstaklega fyrir kvöldið.

Snjókross, karfa og fótbolti

Lokaumferð Íslandsmeistaramótsins í snjókrossi verður haldin á Fjarðarheiði. Byrjað verður að keyra á hádegi á morgun.

Karlalið Hattar í körfuknattleik getur tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð þegar liðið tekur á móti Álftanesi í þriðja leik liðanna í umspilum um sætið í kvöld. Leiknum hefur verið seinkað um klukkustund og hefst klukkan 20:15.

Knattspyrnufélag Austfjarða mætir Sindra í annarri umferð bikarkeppni karla í knattspyrnu á Höfn á morgun meðan Fjarðabyggð/Höttur tekur á móti Augnabliki í sínum síðasta leik í Lengjubikarnum.

Sárablót, málvísindi og stjórnmál

Borgfirðingar efna til sárablóts, til að vega upp á móti þorrablótunum sem fallið hafa niður síðustu tvö ár í Fjarðarborg annað kvöld. Jón Arngríms og Nefndin spila fyrir dansi eftir borðhald.

Á Breiðdalsvík hefst klukkan 13:00 á morgun málþing um arfleifð Stefáns Einarssonar, málvísindamanns úr Breiðdal, á rannsóknir á íslenskum bókmenntum. Stefán, sem starfaði sem prófessor í Bandaríkjunum, safnaði heimildum og ritaði bókmenntasögu á ensku um kringum 1950.

Framboðin í sveitastjórnarkosningunum eru síðan með fjölbreytta viðburði. Sjálfstæðisflokkurinn opnar kosningaskrifstofur í Fjarðabyggð, Framsókn í Múlaþingi heldur súpufundi, Fjarðalistinn og Vinstri græn í Fjarðabyggð verða hvor í sínu lagi með plokkdaga og Austurlistinn er með kökufundi.