Helgin: Kvennadagur í mótorkrossbrautinni og sýningaropnanir

Sérstakur kvennadagur verður haldinn á sunnudag í mótorkrossbrautinni í Mýnesgrús. Á Skriðuklaustri og Sláturhúsinu á Egilsstöðum opna nýjar sýningar.

Það er Start akstursíþróttafélag sem efnir til MX kvennadagsins frá 11-15 á sunnudag. Í tilkynningu segir að vanar jafnt sem óvanar konur séu velkomnar í brautina en þær þurfa að koma með eigin mótorhjól. Innan handar verða bræðurnir Björgvin og Hjálmar Jónssynir, sem sagðir eru hafa miklar reynslu af bæði mótorkrossi og konum.

Ferðafélag Fjarðamanna efnir til fjölskylduferðar á sunnudag í Ímadal í Vöðlavík. Mæting er við Ímakot eða Ímastaði í Vöðlavík klukkan 11. Þaðan verður gengi í dalinn og á leiðinni kynnst tröllkonunni Ímu.

Ljósmyndarinn Christophe Taylor opnar sýningu sína Heima í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun klukkan 14:00. Þar eru myndir sem tengjast hugmyndinni um heimili, teknar á 25 ára tímabili bæði á heimili hans í Frakklandi og af yfirgefnum húsum.

Christopher er jafnframt gestur fyrsta viðburðarins í röðinni Fiskisúpa – Ljósmyndasósa sem Ströndin Studio á Seyðisfirði stendur fyrir. Að þessu sinni verður súpan borin á borð í Sláturhúsinu klukkan 18:00 á sunnudag.

Á Skriðuklaustri opnar ný sýning í galleríinu á morgun klukkan 14:00. Þar verða verk eftir Sigrúnu Láru Shanko sem hefur sérhæft sig í handgerðum teppum sem eru innblásin af náttúru Íslands og vakið víða athygli. Sigrún Lára, sem býr á Vopnafirði, sýnir landslagsverk sem hún hefur unnið með blandaðri tækni akrýl, blaðgyllingu og olíupastel.

Lifandi tónlist verður á Aski Taproom annað kvöld. Undir miðnættið koma fram Yung Nigo Drippin‘ og Issi.

Í Íslandsmótinu í knattspyrnu tekur Höttur/Huginn á móti KV á morgun í annarri deild karla en KFA spilar gegn Haukum í Hafnarfirði. Í Lengjudeild kvenna spilar FHL gegn Fylki í Árbæ. Einherji tekur síðan á móti Fjölni í annarri deild kvenna á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.