![](/images/stories/news/2016/ljosahatid_preview.jpg)
Helgin: Ljósahátíð hefst á Seyðisfirði
Listahátíðin List í ljósi verður sett á Seyðisfirði í fyrsta sinn í kvöld. Framhaldsskólanir velja framlag sitt í söngkeppni framhaldsskólanna og karlalið Þróttar í blaki tekur á móti Stjörnunni.
Ljósahátíðin hefst í dag með ýmsum uppákomum en aðal fjörið verður annað kvöld milli klukkan átta og tólf þar sem kveikt verður á ljósverkum í bænum.
Í boði verður allt frá innsetningum og videóverkum til stærri ljósskúlptúra. Jafnt innlendir sem erlendir listamenn taka þátt í hátíðinni.
„Við erum í raun að fagna komu sólar sem hefur ekki látið sjá sig í nokkra mánuði, það er svolítið pælingin á bak við þetta,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir annar skipuleggjanda hátíðarinnar í samtali við Austurgluggann en hún ásamt Celiu Harrison frá Nýja Sjálandi hafa staðið að undirbúningi listahátíðarinnar.
Verkmenntaskóli Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum standa í kvöld fyrir sameiginlegri söngvakeppni. Níu atriði keppa og verður útnefnt eitt sigurlag frá hvorum skóla. Keppnin verður á sal Menntaskólans á Egilsstöðum og hefst klukkan 19:00.
Karlalið Þróttar í blaki tekur á móti Stjörnunni um helgina. Fyrri leikurinn er klukkan átta í kvöld en sá seinni 13:30 á morgun. Stjarnan er fyrir leikina í öðru sæti úrvalsdeildar karla en Þróttur í því þriðja.