Helgin: Myndlist, Magni og margt fleira

Það er nóg um að vera á Austurlandi um helgina og ekki síst í listalífinu, en minnst fjórar myndlistarsýningar opna um helgina. Þá er hátíðahátíð á Borgarfirði og hljómsveitin Á móti sól spilar þar sömuleiðis eftir langt hlé.

Í dag opnar myndlistarsýningin SPLÆSA í gömlu netagerðinni í Neskaupstað. Sýningin er óður til ýmissa gjörða sem tengjast hafinu, hvort sem um er að ræða líkamlega vinnu til verðmætasköpunar eða hugmyndum og innblæstri sem hafið veitir okkur í hversdagsleikanum. Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Arnar Ásgeirson, Daníel Ágúst Ágústsson, Elísabet Brynhildardóttir, Erling T.V. Klingenberg (í samstarfi við Aðalstein Stefánsson), Gunnar Jónsson og Hekla Dögg Jónsdóttir.

Sýningin er hluti af listahátíðinni Innsævi, sem Austurfrétt hefur áður fjallað um, og það sama má segja um sýningu sem nefnist Ljósvaki // Æther 1.0.2. og verður opnuð á laugardag kl. 16 í gamla barnaskólanum á Eskifirði. Þar sýna listakonurnar Selma Hreggviðsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir, en sumarið 2019 settu þær upp sýninguna Ljósvaki // Æther í Dahlshúsi á Eskifirði og var í kjölfarið boðið að gera sýningu í Berg Contemporary í Reykjavík á nýjum verkum út frá sama viðfangsefni. Á sýningunni nú verða verk sem unnin voru síðastliðin vetur ásamt nýjum verkum sem tvinna saman staðbunda sögu Eskifjarðar, vísindi og listir.

Báðar þessar sýningar verða opnar gestum fimmtudaga til sunnudaga til 15. ágúst, kl. 13-17.

Þá er í tengslum við Innsævi boðið upp á sérstakan matseðil í Beitskúrnum á föstudag, þar sem DJ Unnur Birna mun leika ljúfa tóna eftir kl. 20, og fyrirlestur í Randulffssjóhúsi á laugardag kl 14 þar sem Kristján Leósson fræðimaður fjallar um silfurberg og sögu þess, en íslenskt silfurberg lék lykilhlutverk í mörgum mikilvægum vísindauppgötvunum, allt frá 17. öld og fram á þá 20. Súpa verður þar á boðstólum fyrir gesti.


Þétt dagskrá á Borgarfirði

Vertarnir í Já sæll í Fjarðarborg á Borgarfirði hafa vakið athygli gegnum árin fyrir hátíðahöld í júlímánuði þar sem jólin hafa til að mynda verið haldin hátíðleg, bæði hefðbundin og heiðin, sem og áramótin ´86-´87 svo eitthvað sé nefnt. Að þessu sinni efna þeir til hátíðahátíðar á föstudagskvöld, en samkoman gengur einnig undir nafninu vitleysishátíð. Þar er steypt saman öllum þeim hátíðum sem gestir kæra sig um, svo sem húkkaraballi, kjötkveðjuhátíð, hjónaballinu á Fáskrúðsfirði og mörgum fleiri, og þær framkvæmdar á einni kvöldstund án óþarfa ferðalaga, óeðlilegra fjárútláta og óhamingjusamra hjónabanda. Vertarnir lofa allsherjar lausn við uppsöfnuðum hátíðarþorsta á viðsjárverðum tímum, veislumat, skemmtiatriðum og sértækum aðgerðum við kjötsvima. Miðasala er í Fjarðarborg.

Á laugardagskvöld munu síðan Magni og félagar í hljómsveitinni Á móti sól láta ljós sitt skína í Fjarðarborg. Þeir piltar hafa að eigin sögn verið miklu meira en spenntir í yfir 20 ár og heita því að aldamótanostalgía og almenn gleði muni ráða ríkjum þegar þegar þeir mæta á Borgarfjörð í fyrsta sinn síðan 2008. Þeir munu leika öll sín vinsælustu lög auk nokkurra klassískra slagara sem eru í uppáhaldi.

Fyrr á laugardag opnar myndlistarsýningin Er Flétta Hnútur? í Hafnarhúsi Borgfirðinga. Það eru þau Sigurrós G. Björnsdóttir, Árni Jónsson og Andri Björgvinsson sem sýna ný verk en þau hafa dvalið á Borgarfirði í aðdraganda sýningarinnar og unnið þar verkin sem sýnd verða. Opnunin hefst kl 14 og eru allir velkomnir að þiggja léttar veitingar.


Tónlistarfólk á ferð og enn meiri myndlist

Tónlistarkonan Hera sendir um þessar mundir frá sér nýja plötu og er af því tilefni á ferð um Austurland með tónleika. Hún verður á Beljanda á Breiðdalsvík á föstudag kl. 20:30 og í Beituskúrnum í Neskaupstað á laugardag kl. 21. Miðasala er á tix.is.

Þá mun trúbadorinn Óli Trausta heimsækja Valaskjálf um helgina og halda uppi góðri stemmingu á barnum frá kl. 21, föstudag og laugardag. Enginn aðgangseyrir er á trúbbakvöldin.

Fyrir þá sem ekki ætla sér niður á firði mun á laugardag kl. 16 opna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum seinni sumarsýning Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Sýningin LAND er samsýning á verkum sex listamanna sem öll nota ljósmyndina sem miðil. Listamennirnir eru Katrín Elvarsdóttir, Daníel Magnússon, Guðmundur Ingólfsson, Þórdís Jóhannesdóttir, Vigfús Birgisson og Hallgerður Hallgrímsdóttir. Allir eru velkomnir.


Útivist og messuhald utan alfaraleiðar

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs heldur í hefðbundna sunnudagsgöngu um helgina sem í þetta sinn er út á Þerribjarg, á skaganum milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa. Klettarnir þar eru einir litríkustu sjávarhamrar landsins, ljósir, gulir, og appelsínugulir með svörtum berggöngum. Ekið verður frá Egilsstöðum, upp á Hellisheiði og um vegslóða að Kattárdal. Gönguleiðin er tæpir 11 kílómetrar fram og til baka. Mæting er við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Egilsstöðum og lagt verður af stað þaðan klukkan 9 eftir að sameinast hefur verið í bíla.

Sömuleiðis verður á sunnudag árleg sumarmessa á Klyppstað í Loðmundarfirði. Messan hefst kl. 14. og mun sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, predika en Sr. Jóhanna Sigmarsdóttir og Sr. Þorgeir Arason þjóna fyrir altari. Bakkasystur frá Borgarfirði syngja og organisti verður Jón Ólafur Sigurðsson. Kirkjukaffi verður í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á staðnum að messu lokinni.

Messað verður á Klyppstað um helgina.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar