Helgin: Skógargleði í Vallanesi og kertafleyting í þágu friðar

Árlega skógargleði í Vallanesi verður haldin á sunnudag. Kertum verður fleytt á Egilsstöðum og Seyðisfirði til að minna á þörfina á friði í heiminum. Öll austfirsku liðin í knattspyrnu spila um helgina.

Skógargleðin verður haldin á gögnustígnum Orminum við Vallanes á sunnudag frá 13-17. Þar verður sungið, leikið og setið við varðeld. Meðal annars verður þar sýnd tálgun. Við Asparhúsið verður líka tónlist auk þess sem selt verður grænmeti og aðrar vörur frá Móður Jörð.

Á heila tímanum frá 14-16 verður dagskrá í Vallaneskirkju þar sem Jón Gunnarsson, leikari, les úr verkum Vilborgar Dagbjartsdóttur frá Seyðisfirði og Jón Guðmundsson, fyrrum barnakennari á Hallormsstað, spilar á flautu og kynnir málverkasýningu sína „Útsæði.“

Þann 6. ágúst árið 1945 var kjarnorkusprengju varpað á japönsku borgina Hiróshima. Á þeim tímamótum ár hvert er fleytt kertum víða um heim til að minna á þörfina á friði í heiminum. Að þessu sinni verður kertum fleytt á Egilsstöðum í Tjarnargarðinum annað kvöld og Seyðisfirði við norðurbakka Lónsins á sunnudag. Á báðum stöðum verður stutt dagskrá í þágu friðar sem hefst klukkan 21:30.

Guli verkfæratrukkurinn Yellow Demon stendur við Johan Rönning á Reyðarfirði til klukkan 14:00 í dag. Þar er skrúfukeppni þar sem veitt verða verðlaun fyrir fljótasta skrúfarann auk þess sem fjöldi verkfæra verða til sýnis.

Öll austfirsku knattspyrnuliðin spila um helgina. Fyrst í röðinni er nágrannaslagur Spyrnis og Einherja á Fellavelli klukkan 19:00 í fjórðu deild karla. BN sækir síðan Hamrana heim á morgun.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tekur á móti Grindavík í Lengjudeild kvenna á morgun klukkan 14:00 í Fjarðabyggðarhöllinni. Sléttum sólarhring síðar hefst þar leikur KFA og Ægis í annarri deild karla. Í þeirri deild leikur Höttur/Huginn við Víking í Ólafsvík á morgun. Lið Einherja í annarri deild kvenna spilar þá einnig gegn Hamri í Hveragerði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.