Helgin: Sýnir listaverk gerð eftir rýmingu Seyðisfjarðar

Listakonan Nína Magnúsdóttir notar hár í listaverk sín á vetrarsýningu Skaftfells sem opnar í dag. Verkin á sýningunni eru gerð eftir að Seyðisfjörður var rýmdur í kjölfar skriðufallanna í desember 2020. Dagskrá helgarinnar ber þess merki að aðventa hefst á morgun.

Sýning Nínu kallast „Hársbreidd“ og á henni eru rúmlega 20 ný verk. Nína og fjölskylda þeirra eru meðal þeirra sem björguðust úr skriðunni en hún féll að hluta á hús þeirra.

Vegna þess gátu þau ekki snúið aftur í það fyrr en eftir nokkra mánuði en bjuggu á meðan í bryggjuhúsi Roth fjölskyldunnar á Seyðisfirði. Í tilkynningu segir að þetta tímabil neyðarflutninga hafi verið tími uppgjörs og leitar að stöðugleika á óvissutímum.

Að nota hár sem efnivið er nýtt fyrir Nínu en það er aðferð sem þróaðist áreynslulaust út frá hugmyndinni um hár sem hluta af líkamanum en líka efni sem er skilið frá honum. Ferlið við gerð verkanna fól í sér samspil mynstranna sem myndast af þráðunum og fíngerðrar meðhöndlunar listamannsins á þeim: tilviljun og vilji mætast á yfirborði strigans.

„Þetta snýst ekki um að beita hugmyndafræðinni og þvinga hárið undir mína stjórn; heldur frekar að koma einhvers konar reglu á ringulreiðinni og kanna nýja tegund af formi,“ segir Nína.

Sýningin verður opnuð klukkan 16 í dag og er opin þriðjudaga til sunnudaga frá 17-22 fram í lok júlí.

Af öðrum viðburðum helgarinnar á Austurlandi má nefna pólska kvikmyndahátíð í Valhöll á Eskifirði og árlega Grýlugleði að Skriðuklaustri í Fljótsdal. Þar bregða sagnálfar og gaulálfar á leik auk þess sem Grýla og Leppalúði hafa gjarnan kíkt við.

Jólamarkaðir eru í dag í Fljótsdal og Neskaupstað og á morgun verða jólaljós tendruð á Norðfirði og Djúpavogi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.