Helgin: Tónleikar, bókaútgáfa, leikrit og íþróttir
Viðburðir helgarinnar bera það með sér að lífið sé að færast í samt horf á ný eftir Covid-faraldurinn og jafnvel sé uppsöfnuð þörf.Textíllistamaðurinn og brúðuleikarinn, Carola Mazzoti frá Paragvæ mun bjóða uppá námskeið í útsaum frá rómönsku-Ameríku á Bókasafni Seyðisfjarðar klukkan 15:00.
Norðfirska hljómsveitin Coney Island Babies heldur tónleika í Valhöll á Eskifirði í kvöld klukkan 20:00. Sveitin ætlar að flytja úrval laga af plötum sínum tveimur ásamt nokkrum lögum úr öðrum áttum. Sérstakir gestir á tónleikunum verður pönksveitin DDT-skordýraeitur.
E.U.E.R.P.I. er listamannsnafn Búlgarans Mirian Kolev. Hann notast einkum við gítar og umhverfishljóð til að búa til tóna- og tíðnisvið. Kolev hefur flutt tónlist sína fyrir áhorfendur víða um Evrópu og Asíu og nú er komið að Austurlandi. Hann verður í Tehúsinu á Egilsstöðum klukkan 19:00 á laugardag og í Herðubreið, Seyðisfirði á sunnudag klukkan 19:30.
Dúndurfréttir er meðal þekktari hljómsveita landsins fyrir útgáfur sínar af lögum hljómsveita eins og Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep Purple, Uriah Heep og Queen. Sveitin mætir í Egilsbúð í Neskaupstað á laugardag og flytur úrval laga. Tónleikarnir eru hluti af Tónaflugi í Neskaupstað og hefjast klukkan 21:00.
Sama kvöld verður einleikurinn Hellisbúinn sýndur í Valaskjálf á Egilsstöðum. Um er að ræða 30 ára afmælissýningu og er það Jóel Sæmundsson sem fer með hlutverk Hellisbúans að þessu sinni. Sýningin hefur verið uppfærð og endurskrifuð í takt við tímann. Sýningin hefst klukkan 20:00.
Rithöfundurinn Sveinn Snorri Sveinsson kynnir nýjustu bók sína, Ferðalag til Filippseyja, á Skriðuklaustri á sunnudag. Hann les upp úr verkinu og sýnir myndir sem tengjast skáldævisögunni. Þetta er önnur bókin í röð hans þar sem sambandi sögumanns og unnustu frá Filippseyjum er fylgt eftir. Að þessu sinni liggur leið til Manilla og Dubaí. Sveinn Snorri stígur fram klukkan 15:00 á sunnudag.
Karlalið Þróttar í blaki tekur á móti Þrótti Vogum. Liðin leika tvisvar, á laugardag klukkan 15:00 og aftur á sunnudag klukkan 13:00.
Í fyrstu deild karla í körfuknattleik á Höttur leik gegn Hamri í Hveragerði klukkan 19:15 í kvöld.