Helgin: Tónlist, fjallganga og tröllskessa

Tónleikahald er fyrirferðamikið í viðburðahaldi á Austurlandi þessa dagana og verður það áfram um helgina. Fjallganga og barnaleikrit eru einnig á dagskránni.

Í kvöld er þriðja kvöldið af fjórum í tónleikaröð Jónasar Sigurðssonar í Fjarðarborg á Borgarfirði. Margvíslegur gestir hafa komið fram og í kvöld verða Jón Ólafsson og Hildur Vala gestir hans en þau hafa verið á ferð um Austfirði í vikunni. Tónleikaröðinni lýkur annað kvöld. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Á Seyðisfirði kemur Shag Fu fram í Kiosk 108. Um er að ræða tíu ára gamla rokkhljómsveit frá Venesúela með aðsetur á Spáni og í Portúgal. Sveitin hefur sent frá sér tvær breiðskífur. Með í för verður plötusnúðurinn DJ Issy. Tónleikarnir hefjast klukkan 18:00 í kvöld.

Tónlist frá Spáni og Suður-Ameríku veðrur einnig leikin í Randulfssjóhúsi á Eskifirði í kvöld. Hún verður þó af öðrum toga því um er að ræða létta gítartónlist sem Svanur Vilbergsson spilar. Aðgangur er ókeypis í boði Tónlistarmiðstöðvar Austurlands og Menningarstofu Fjarðabyggðar. Tónleikarnir byrja klukkan 21:30.

Ferðafélögin á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð leggja saman í fjallgöngu á morgun þar sem gengið verður á Stuðlaheiði. Mæting er við Stuðla í Reyðarfirði, þar sem tengivirki raforkukerfisins stendur, klukkan níu í fyrramálið. Kristinn Þorsteinsson er fararstjóri.

Leikhópurinn Lotta hefur ferð sína um Austfirði um helgina. Sýnt verður við íþróttavöllinn á Djúpavogi á morgun en síðan haldið áfram og sýnt tvisvar á Egilsstöðum á sunnudag áður en farið verður víða um Austfirði.

Leikhópurinn ferðast að þessu sinni um með sýningu sína um Gillitrutt. Hún var fyrst sýnd fyrir tíu árum og hefur notið mikilla vinsælda. Við söguna um Gillitrutt fléttast sögurnar um Geiturnar þrjár og Búkollu.

Bæði austfirsku kvennaliðin í Íslandsmótinu í knattspyrnu spila heimaleiki á morgun. FHL tekur á móti Grindavík en Einherji á móti ÍA. Báðir leikirnir hefjast klukkan 14:00. Í fimmtu deild karla spilar Spyrnir útileiki, gegn KM í kvöld og SR á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar