„Helst útlendingar sem sýna torfkofunum einhvern áhuga“

„Það fást nú yfirleitt ekki margir á svona sérhæfð námskeið en sjö einstaklingar sýndu áhuga að vera með og nú erum við að klára að gera upp gamlan torfhlaðinn reykkofa og hann verður auðvitað að vígja með því að reykja hangikjöt þar með gamla laginu,“ segir Þorvaldur P. Hjarðar, vélfræðingur.

Hann hefur undanfarna daga haldið torfhleðslunámskeið að Vallholti í Fljótsdal þar sem hann kennir aðferðir þær er forfeðurnir brúkuðu þegar byggja skyldi torfhús. Sjálfur hefur Þorvaldur mikla reynslu af slíku eins og sjá má á torfhúsunum í Hjarðarhaga í Jökuldal sem hann hefur meðal annars gert upp á glæstan máta og auðvitað allt með gamla laginu.

Námskeiði Þorvaldar lauk í gær en hann kennt gömlu handtökin við að byggja úr torfi og grjóti á austfirskan máta en sá máti er aðeins frábrugðinn því sem gert var annars staðar.

„Það vita það nefninlega ekki margir en það var sitthvað sérstakt við torfhúsin hér austanlands. Þar fyrst og fremst að þau eru langflest hlaðin í svokölluðum streng. Það er að segja að torf- og grjótlag var sett til skiptis. Slíkt ekki óþekkt annars staðar en mjög áberandi hér austanlands. Það kom mikið til af því að hér var ekki mikið af góðu grjóti víðast hvar.“

Þorvaldur segist finna fyrir vaxandi áhuga á íslensku torfhúsunum en segir þann áhuga vera langmest hjá erlendum ferðamönnum sem hafa fæstir vitnað annað eins.

„,Áhuginn er sannarlega vaxandi en kannski minnst hjá Íslendingum. Það skýtur skökku við því við förum gjarnan að skoða gömul mannvirki þegar við sjálf erum á ferðalögum erlendis en hirðum svo lítt sem ekkert um okkar eigin merkilegu sögu og hús. Og enginn skyldi velkjast í vafa um að íslensku torfhúsin eru stórmerkileg í öllu tilliti.“

Þorvaldur segir að Íslendingar eigi sína eigin parmesan-skinku en fæstir viti af því.

„Málið er að hér áður fyrr var allt hangikjöt tvíreykt í reykkofum úr torfi og slíkt hangikjöt er töluvert frábrugðið því framleidda hangikjöti sem landinn fær í dag í kjörbúðum. Kjötið eru miklu þéttara í sér og bragðið er mun ljúfara. Þetta er, að mínu viti, hin eina sanna íslenska lúxusvara en ekki nokkur maður eru að gera sér mat úr þessari sögulegu hefð. En svo missum við okkur yfir Parmesan-skinku á Ítalíu eða Iberico-skinku á Spáni. En við eigum bara algjörlega sambærilega vöru hérlendis ef við bara reykjum hana í gamaldags torfreykhúsum.“

Þorvaldur ásamt þeim einstaklingum sem lærði gömlu handverkin við torfhleðslur í vikunni. Gamli reykofninn orðinn eins og nýr. Mynd Ásdís Helga Bjarnadóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.