![](/images/stories/news/folk/Íris_Lind_Sævarsdóttir.jpg)
„Herðubreið á hjarta mitt“
Myndlistamaðurinn Íris Lind Sævarsdóttir hefur tekið þátt í List án landamæra í tvö ár, en sýningin hófst í gær og stendur til 11. maí. Íris Lind er í yfirheyrslu vikunnar á Austurfrétt.
„List án landamæra er mikilvæg fyrir alla, bæði þátttakendur og áhorfendur. Hún gefur fötluðu fólki sem ófötluðu tækifæri á að vinna saman og skapa vettvang fyrir sköpun. Hvetur til samstarfs ólíkra listamanna á öllum stigum samfélagsins. Er gott fordæmi fyrir unga sem aldna til að hafa opin huga og vera laust við alla fordóma hvort sem það er til fólks eða listarinnar,“ segir Íris Lind.
„Ég hef unnið tvö ár með Aron Kale þar sem við höfum hist og teiknað saman í hádeginu á miðvikudögum og haldið myndlistarsýningar saman. Við Eddi hittumst fjórum sinnum og máluðum saman og teiknuðum. Teddu og Sjöfn hitti ég einnig fjórum sinnum og þar var unnið í þann efnivið sem var spennandi hverju sinni.“
Dagskrá Listar án landamæra má sjá hér.
Fullt nafn: Íris Lind Sævarsdóttir.
Aldur: 43 ára.
Starf: Verðandi námsmaður enn einu sinni.
Maki: Gunnlaugur Guðjónsson.
Börn: Natalía 20 ára, Brynhildur Brá 16 ára, Finnur Huldar 14 ára og Rakel 8 ára.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Smjör, egg og sultu.
Hver er þinn helsti kostur? Sveigjanleiki, hvatvísi, fróðleiksþorsti og jákvæðni.
Hver er þinn helsti ókostur? Þrjóska, hvatvísi og óþolinmæði.
Besta bók sem þú hefur lesið? Karitas hélt mér við lesturinn í heilan dag. En annars eru það frekar bækur tengdar listum eða mannskepnunni eða tímarit eins og Scientific American Mind sem fjalla um rannsóknar á heilanum.
Mesta undur veraldar? Meðganga og fæðing hjá lífverum.
Tæknibúnaður? Elska öll þessi öpp sem maður getur nýtt í allt sem maður nauðsynlega þarf eða ekki.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil? Vinna á munaðarleysingjahæli og listakona.
Hver er þín fyrsta æskuminning? Man það ekki, man ekki mikið eftir mér fyrr en orðin aðeins eldri eða um 9 ára aldur.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Get ekki valið, átti skyldfólk á nánast öllum fjörðum sem barn svo ég elska firðina alla með tölu og finnst dásamlegt hvað við eigum mikil verðmæti í þeim öllum, gerum of lítið með það í ferðamennsku að gera út á sérkenni hvers og eins. Svo kynnist ég Djúpavogi á menntaskólaárunum og það er klárlega einn af fallegustu stöðunum en svo á ég ættir að rekja til Möðrudals og hann er í sérstöku uppáhaldi og Herðubreið á hjarta mitt. Svo Austurland frá hálendi til sjávar er uppáhaldið.
Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sú sem kemur næst hverju sinni því þá er maður svo tilbúin, nema helst þegar vetrar of snemma eða vorar seint þá finn ég fyrir óþolinmæðinni. Vorið og haustið eru samt sennilega í aðeins meira uppáhaldi með eftirvæntingunni og lífinu sem er að kvikna að vori og svo öllum gjöfum jarðar að hausti, berjum, sveppum og sólarlaginu.
Syngur þú í sturtu? Nei held ekki.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika og einlægni.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Jesú til að athuga hvort hann hefði verið til og hvað honum fyndist um allan þennan leikþátt í kringum hann.
Gæðastund með fjölskyldunni, hvernig væri hún? Vera saman í Möðrudal eða í Holtinu á Djúpavogi eða bara hvar sem er í heiminum, elda góðan mat og fíflast.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Svo ótal margar, mamma mín, systur hennar, frænkur og frændur, vinkonur, vinir og allt það góða fólk sem ég hef hitt á lífsleiðinni.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ef ég gæti sent með vindinum meira umburðarlyndi og náungakærleika þá myndi heimurinn kannski lækna sig sjálfur með tímanum og hætta fordómum og stríðsrekstri.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Hef aldrei verið með fötulista heldur leyfi ég hjartanu að ráða för og það hefur ekki klikkað hingað til að leiða mig á spennandi slóðir.
Duldir hæfileikar? Nei bara ósköp venjuleg manneskja og hvatvísin væri löngu búin að koma upp um það ef svo væri .
Mesta afrek? Að ná vonandi að kenna nokkrum börnum og unglingum eitthvað um lífið sem þau geta nýtt sér til góðs.
Ertu nammigrís? Nei, forréttagrís.
Hvað er list? Allt sem gerir okkur að manneskjum á hverju tímabili fyrir sig.