Hinsegin hópur Vegahússins samveruvettvangur fyrir ungmenni sem passa ekki í normið

Hinsegin hópur Vegahússins á Egilsstöðum var stofnaður fyrir um ári. Verkefnastjóri segir fjöldann sem sótt hefur í hópinn hafa sýnt þörfina á honum.

„Tilgangurinn með Hinsegin hópnum er að styðja við ungt fólk sem skilgreinir sig sem hinsegin; að búa til samveruvettvang fyrir fólk, sem passar ekki í „normið“.

Það var greinilega þörf fyrir þetta framtak, eins og við áttum reyndar von á, enda segir tölfræðin okkur það. Fólk hér fyrir austan er ekkert öðruvísi en annað fólk á Íslandi, eða annars staðar í heiminum.

Það er einfaldlega einhver ákveðin prósenta af fólki, án þess að ég ætli að gera tilraun til að skilgreina það nánar, sem er hinsegin,“ segir Reynir Hólm Gunnarsson, sem setti hópinn af stað er hann var verkefnastjóri í Vegahúsinu.

Urðu fyrir gelti


Reynir segir þörfina líka hafa kviknað þar sem hinsegin ungmenni hafi orðið fyrir aðkasti. „Okkur var kunnugt um að nemendur í skólunum á svæðinu, sem eru opinskáir með sinn hinseginleika, höfðu orðið fyrir aðkasti, t.d. með svokölluðu „gelti“ sem varð frægt í gegnum samskiptaforritið TikTok. Þetta er auðvitað mjög bagalegt.

Gerendur eru ekki endilega að taka þátt í þessu einelti af illum hug. Oft er þetta meira hugsunarleysi og vanþekking, eða eitthvað sem á að vera fyndið. Það eru hins vegar mörg dæmi um að hinsegin ungmenni hafi farið mjög illa út úr einelti af þessu tagi, andlega og félagslega og það þarf því að upplýsa fólk um hve hættulegt þetta er.

Það er alveg rétt að börn og unglingar á grunnskóla aldri uppgötva oft snemma ef þau falla fyrir utan einhverja kassa. Þau finna að þau eru „öðruvísi“ að einhverju leyti, þótt þau viti ekki alltaf hvers vegna. Fræðslan er því mjög mikilvæg, hún er besta forvörnin gegn fordómum og getur verið leiðarvísir fyrir þá sem eru með spurningar eða pælingar í sínum eigin hinseginleika og þá kannski í leiðinni kynnst öðrum í svipuðum pælingum.“

Vegahúsið er staðsett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og ætlað ungmennum á aldrinum 16-25 ára. Hópurinn hittist reglulega og ákveður sjálfur hvað hann gerir sér til dægrastyttingar, aðaláherslan er á skemmtilega samveru.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.