Orkumálinn 2024

Hlakkar til að standa aftur á sviðinu í Valaskjálf

Birna Pétursdóttir, leikkona frá Egilsstöðum, er meðal leikara í sýningu Þjóðleikhússins, Prinsinn, sem sýnd verður í Valaskjálf á fimmtudagskvöld. Birna, stóð þar síðast á sviði fyrir um tuttugu árum eða um svipað leyti og verkið gerist.

„Ég byrjaði að leika með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs sem barn og það gaf mér byr í ferilinn. Ég held ég hafi síðast staðið á sviðinu í Valaskjálf um fermingu þegar Þrek og tár var sett upp eða á árshátíð grunnskólans í 10. bekk,“ rifjar Birna upp.

Prinsinn er nýtt íslensk leikverk eftir leikstjórann Maríu Reyndal og Kára Viðarsson, sem leikur aðalhlutverkið. Verkið var frumsýnt í Frystiklefanum á Rifi í byrjun mánaðarins en hefur síðan verið á ferð um landið.

Prinsinn var aðalsjoppan í Ólafsvík upp úr aldamótum og er miðpunktur sögunnar. Aðalpersónan fær símtal frá afgreiðslustelpunni um að hún sé ólétt og hann sé faðirinn. Verkið byggir á atburðum úr ævi Kára sem sjálfur fékk slíkt símtal 17 ára gamall.

„Þetta er saga sem ætti að tala til allra þeirra sem hafa búið eða alist upp í litlum bæjarfélögum. Eins og aðrir tengi ég við þennan veruleika sem dreginn er upp. Við þekkjum öll stelpuna sem varð ólétt 16 ára. Við erum oft fljóta að dæma og fylla í eyðurnar gagnvart henni.

Ég leik stelpuna sem verður ólétt. Ég tók ástfóstri við hennar málstað. Það sem gerir þetta flækir stöðuna er að ég leik á móti raunverulega manninum úr sögunni. Í þessu verki heyrum við líka upplifun karlmannsins, sem er saga sem við heyrum sjaldnar.

Síðan bætast við fleiri og óvæntar hliðar, sem og bæjarslúðrið. Þetta hefur því verið hollt og heiðarlegt en líka persónulegt því það er sjaldgæft að hafa eina aðalpersónuna í sögunni á móti sér á svæðinu. Þetta er falleg, fyndin og hjartnæm sýning sem allir ættu að geta tengt við,“ segir Birna.

Birna, sem er verkefnaráðin hjá Þjóðleikhúsinu en hefur annars verið að setja á svið eigin sýningar, segir heiður að fá tækifæri að koma austur með leikhúsinu. „Ég hef því miður ekki haft tækifæri til að fara með mínar sýningar austur þótt það skorti ekki viljann. Þess vegna er ótrúlega gaman að fá þetta tækifæri til að koma heim og leika. Ég vonast til að sjá sem flesta. Ef við gerum þá kröfu að Þjóðleikhúsið þjónusti okkur þá verðum við að mæta til að halda henni við.“

Birna og Kári í hlutverkum sínum. Mynd: Þjóðleikhúsið


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.