Hlöðuballið toppurinn en ballið með gömlu dönsunum vekur athygli á Vopnaskaki
Árleg bæjarhátíð Vopnfirðinga, Vopnaskak, hófst formlega í gærdag en hátíðin mun standa linnulaust fram á sunnudaginn kemur.
Sem fyrr er fjöldi viðburða í gangi alla daga en aðspurð hvað standi þar hæst segir Debóra Dögg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, ekkert toppa Hlöðuballið í Staðarholti að sínu mati. Þar verði, sem endranær, ekta gamaldags hlöðuballssteming sem finnst ekki víða lengur.
„En svo breyttum við aðeins út af hefðinni og í staðinn fyrir að vera með hagyrðingakvöld ákvað ég að prófa að bjóða upp á gömludansaball í staðinn og það er sannarlega að vekja athygli. Fyrir ballið ætlum við að bjóða þeim sem ekkert kunna fyrir sér að læra svona helstu skrefin með danskennaranum á staðnum svo það er engin afsökun fyrir að prófa ekki einu sinni eða svo.“
Debóra segir að nokkuð sé af ferðafólki í bænum sem njóti góðs af hinum ýmsu skemmtunum líka og sérstaklega sé áberandi hve margir brottfluttir Vopnfirðingar séu komnir aftur í bæinn til að taka þátt.
„Það er mjög gaman að sjá það fólk mæta á hátíðina og ég get alveg lofað góðri skemmtun hvort sem um er að ræða ungt fólk eða þá sem eldri eru. Hátíðin er mjög fjölbreytt að því leytinu til.“
Dagskrá hátíðarinnar í heild má finna á fésbókarvef Vopnaskaks.
Mynd: Brynjar Davíðs og hljómsveit spiluðu þekkta slagara í kjötsúpuveislu á Oddnýjarreitnum í bænum í gærkvöldi en það var jafnframt fyrsti dagur hátíðarinnar. Mynd aðsend.