Hnoðaði lífi í hrút

Valgeir Guðmundsson, sjómaður í Neskaupstað, bjargaði í vikunni lífi gemlingshrútar með að beita hjartahnoði. Valgeir segir að honum hafi ekki dottið til hugar að tilraunin myndi bera árangur þegar hann byrjaði að hnoða.

„Ég var að landa úr bátnum mínum, nýkominn úr róðri, þegar maður kemur hlaupandi og spyr hvort ég geti bjargað hrúti sem hafi stokkið út í sjó. Ég bakkaði frá landi og sá hrútinn í sjónum þar sem hann var með hausinn á kafi að sökkva.

Ég var með langan krókstjaka um borð og náði með honum í hornið á hrútnum. Þannig gátum við dröslað honum um borð.

Ég byrjaði strax að hnoða hann, notaði hnéð til þess. Ég gerði það bara til að prófa, mér datt ekki til hug að það myndi takast. Fyrst sýndi hann engin viðbrögð en ég hélt áfram og þá byrjaði hann að froðufella, það rann út úr honum sjórinn og hann byrjaði að ranka við sér.

Við hífðum hann upp á bryggju þar sem hann var settur í bíl og fluttur fyrst í hesthúsin til aðhlynningar.“ Þannig lýsir Valgeir atganginum í Norðfjarðarhöfn á þriðjudag.

Hann segir hrútinn hafa komið innan frá Kirkjubóli en strokið þaðan í bæjarferð. Hrúturinn hafi gengið úti fyrri hluta vetrar í Mjóafirði og því verið afar styggur sem varð til þess að hann stökk í sjóinn frekar en láta handsama sig.

Valgeir, sem er bæði alinn upp í sveit auk þess að halda tíu kindur í Norðfirði, segir hrútinn hafa verið farinn að hjarna við um tveimur tímum eftir volkið og verið við ágæta heilsu síðast þegar hann frétti af honum. „Ég hef aldrei hnoðað kind í gang áður en ég ákvað að reyna og sjá hvort ekki væri hægt,“ segir hann að lokum.

Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.