Höfum við fjarlægst okkar náttúrulega umhverfi um of?

Er það að við höfum fjarlægst náttúrulegt umhverfi forfeðra of hratt á stuttum tíma ein af ástæðum þess að sálræn vandamál hafa aukist í vestrænum samfélögum undanfarna áratugi? Þetta er spurning sem Sigurður Ólafsson, fjölskylduráðgjafi í Neskaupstað, telur þess virði að velta upp.

Sigurður hélt erindið „Fjölskylduráðgjöf – munum eftir (frum)mennskunni á geðheilbrigðismálþingi sem Tónleikafélag Austurlands stóð fyrir í haust.

„Starf mitt sem fjölskyldufræðingur gengur út á að horfa á allt fjölskyldumengið og vinna út frá þeirri staðreynd að enginn er eyland. Það er að segja að andleg vandamál verða ekki til í tómarúmi. Þau verða alltaf til í einhverju samhengi sem við þurfum að skilja til að meðhöndla og vinna með. Þetta vill stundum gleymast,“ útskýrði Sigurður.

Stundum sé horft á einstaklinginn en ekki hugsað út í að maðurinn sé félagsvera og fólkið sem standi honum næst móti hann mjög. Oftast komi eitthvað upp úr krafsinu úr nánasta umhverfið sem skýri vandamálin þegar kafað sé djúpt, en þar geta lausnirnar líka falist.

„Vandamálin byrja venjulega snemma og því er snemmtæk íhlutun eitthvað sem ég hef mikið pælt í. Þau geta jafnvel byrjað í móðurkviði. Streituhormón flytjast yfir í fylgjuna og þaðan í fóstrið og það getur haft áhrif á myndun taugakerfisins í barninu og þroska og þróun þess í kjölfarið. Þannig að ef móðirin er í mikilli streitu eða vanlíðan á meðgöngu getur það haft áhrif. Svo fæðist barn sem er með hátt streitustig, erfitt að eiga við og foreldrar ekki í stakk búnir til að takast á við það. Þannig er grunnurinn að framtíðarvandanum kominn.“

Hvað gerum við varðandi gæludýrin?


Sigurður telur eðlilegt að fólk, og ekki síst foreldrar, spyrji sig þeirrar spurningar hvers konar umönnun unga fólkið þurfi. „Það er að segja hvers konar lífsmynstur hentar einstaklingi af tegundinni homo sapiens í dag. Þetta er spurning sem fáir spyrja og það vill stundum gleymast að við erum ekkert annað en spendýr. Við erum bara hárlausir, gáfaðir apakettir.

Ef við bara hugsum aðeins hvernig við myndum greina vanda hjá til dæmis gæludýri ef dýrinu okkar líður illa. Hundurinn okkar kannski vansæll og lystarlaus og líður greinilega ömurlega. Við förum til dýralæknisins og hann myndi byrja á að spyrja spurninga eins og hvernig við værum að uppfylla þarfir þessa dýrs. Hefur það félagsskap? Hvað fær dýrið í matinn? Fær það hreyfingu reglulega og svo framvegis. En hversu oft hugsum við svona um okkur mannfólkið? Ekki nógu oft að mínu viti. En hvað þarf maðurinn og hverjar eru hans þarfir?

Frummaðurinn er veiðimaður og safnari og við vitum mikið um þau samfélög því þau hafa verið rannsökuð. Við höfum kannski eytt 0,01 prósenti af mannkynssögunni í þróunarsögunni í allsnægtasamfélagi nútímans. Samfélagið hefur sem sagt gjörbreyst en innst inni hafa hlutirnir lítið breyst. Í genalegu tilliti erum við enn þessir frummenn að miklu leyti.

Og hvað einkenndi slík samfélög áður fyrr? Hóparnir eru litlir, 20 til 50 manns, sem lifa í náttúrunni, hreyfa sig mikið, fá góða hvíld, vinna saman sem ein heild, borða fjölbreytta og breytilega fæðu eftir árstíðum. Fólk deilir öllu og ákvarðanir eru teknar í sameiningu, jafnrétti er mikið og almennur jöfnuður ríkir.

Erum við aðskilin frá náttúrunni?


Allt ofangreint er víðs fjarri veruleika flestra nútímamanna þar sem allir búa í risastórum samfélögum þar sem fólk er skipulagt í stigveldi. „Við erum aðskilin frá náttúrunni, hreyfum okkur flest of lítið, sofum of lítið, borðum of mikið af orkuríkum en næringarsnauðum matvælum. Við erum sífellt meira ein og einmana. Allir hafa aðgang að sérsniðinni afþreyingu, ungabörn eyða litlum tíma á brjósti og eru fljótt farin að eyða tíma hjá ótengdum aðilum í umhverfi þar sem streita er mikil. Frelsi barna er takmarkað. Allt nútímasamfélagið er gjörólíkt þeim samfélögum sem við þróuðumst í.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar