Hömlulaus halarófa á Seyðisfirði á morgun

Árleg gleðiganga verður gengin á Seyðisfirði á morgun, á sama tíma og gengið er í Reykjavík. Frumkvöðull göngunnar segist hafa tekið vini sína með sér í fyrstu gönguna eystra því hann komst ekki suður.

„Það var alltaf hugmyndin hjá mér að fara suður til Reykjavíkur 2014 þegar gleðigangan fór fram þar en svo fór að ég komst ekki og ákvað því að ganga bara sjálfur með fjölskyldu og vinum hér á Seyðisfirði,“ segir Snorri Emilsson á Seyðisfirði.

Snorri segist hafa gengið af stað með fimm eða sex vinum sínum. Fyrst hafi þeir fengið undarlegar augngotur en síðan hafi fleiri slegist í hópinn. Með árunum hefur gangan vaxið og er nú nokkuð fjölsótt.

Fyrir gönguna 2016 var Norðurgatan máluð í regnbogalitum og varð í kjölfarið eitt helsta kennileiti bæjarins og Austurlands alls.

„Gatan var á þessum tíma orðin mjög ljót og léleg og lengi hafi staðið til að laga hana en aldrei raungerst. Við fórum því á leit við bæjaryfirvöld að fá að mála regnboga á hana og mig grunar að vel hafi verið tekið í það vegna þess að það faldi hversu ljót gatan var orðin og ekki voru til fjármunir til viðgerða,“ segir Snorri.

Gleðigangan á Seyðisfirði kallast halarófa og að þessu sinni Hömlulaus halarófa. Gengið verður af stað frá Kaffi Láru klukkan 14:00 á morgun.

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.