Hönnun þema fjórðu Vor/Wiosna-hátíðarinnar
Pólsk-íslenska listahátíðin Vor/Wiosna verður haldin á vegum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs í fjórða sinn. Formlegir viðburðir á vegum hátíðarinnar hefjast á morgun. Hönnun er þema hátíðarinnar að þessu sinni.Á hátíðinni koma fram íslenskir listamenn með pólskan bakgrunn, hönnuðir af pólskum uppruna sem búa og starfa í Noregi auk listafólks sem býr í Póllandi.
Þema hátíðarinnar í ár er hönnun og mismunandi svið hennar, allt frá keramik og tísku til vöru- og matarhönnunar. Sterk tenging við umhverfið er þungamiðja sýningarinnar. Vatn og jarðvegur, jurtir og tré, rannsóknir á efninu og skoðun uppruna hönnunarinnar sjálfrar enduróma í hverju verkefni.
Þetta verður meðal annars sýnilegt á eiginlegri opnun hátíðarinnar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Fyrsti viðburðurinn verður hins vegar annað kvöld þegar tríóið Polski Piach kemur fram. Sveitin spilar blöndu af samtíma kammermúsík, blús og pólskri þjóðlagatónlist. Á miðvikudag koma fram djassgítaristinn Edgard Rugajs og Krzysztof „Arszyn“ Topolski trommuleikari, sem er gestalistamaður hátíðarinnar.
Á laugardag verða vinnusmiðja þar sem lampar verða unnir upp úr gömlum leikföngum, kaffiboð með listafólki hátíðarinnar og sýning á stuttum hreyfimyndum.