Hörð samkeppni í verslun á Djúpavogi á 16. öld

Kaupmenn frá Bremen annars vegar, Hamburg hins vegar, ráku tvær stórverslanir með aðeins örfárra metra millibili á Djúpavogi á 16. öld. Vankunnátta danska konungsins í landafræði var forsenda baráttunnar.

„16. öldin er kölluð þýska öldin á þessum slóðum því þá koma hingað Þjóðverjar,“ sagði Kristján Ingimarsson í samtali við þáttinn Að austan á N4 í gærkvöldi þegar hann rifjaði upp sögu Djúpavogs.

Fyrst fengu kaupmenn frá Bremen leyfi hjá danska konunginum til verslunar við Fýluvog, sem nú er við enda götunnar Hammerminni syðst í þorpinu á Djúpavogi. Þá var hægt að sigla alla leið upp í voginn á sunnanverðu Búlandsnesi. „Það verslunarsvæði var skilgreint sem Austfirðir og hafði leyfi til verslunar á stóru svæði,“ segir Kristján.

Fleiri sáu ábata í versluninni og sóttu kaupmenn frá Hamborg um leyfi til að versla við Berufjörð. Þeirri verslun var komið fyrir á norðanverðu nesinu, við Djúpavog þar sem hjarta byggðarinnar er í dag.

„Danski konungurinn vissi ekki betur en Berufjörður og Austfirðir væru sitt hvor staðurinn. Þess vegna voru hér tvær stórverslanir með 300 metra millibili. Sennilega hefur aldrei verið eins mikil samkeppni og framboð í verslun í Íslandssögunni.“

Að því kom þó að Danakonungur gerði sér grein fyrir að ekki væri langt þarna á milli. Til að höggva á hnútinn ákvað hann að Djúpivogur fengu formlegt verslunarleyfi og var það gefið út 20. júní árið 1589. „Þá varð Djúpvogur formlega til sem staður,“ segir Kristján.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.